Skipað í stöður þriggja saksóknara við embætti sérstaks saksóknara
Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra hefur skipað þau Arnþrúði Þórarinsdóttur, Björn Þorvaldsson og Hólmstein Gauta Sigurðsson í embætti saksóknara við embætti sérstaks saksóknara. Stöðurnar þrjár voru auglýstar lausar til umsóknar 7. ágúst síðastliðinn og rann umsóknarfrestur út 26. ágúst. Nýju saksóknararnir hefja störf við embætti hins sérstaka saksóknara 15. október næstkomandi.
Aðrir umsækjendur voru: Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur og staðgengill lögreglustjórans á Suðurnesjum, Eyjólfur Ármannsson, saksóknarfulltrúi hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir, héraðsdómslögmaður, Guðmundur Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður, Hulda María Stefánsdóttir, fulltrúi ríkissaksóknara, Kristín Björg Pétursdóttir, héraðsdómslögmaður og Ragnheiður Jónsdóttir, lögfræðingur. Tveir drógu umsókn sína til baka.
Hinir nýju saksóknarar
Arnþrúður Þórarinsdóttir er aðstoðarsaksóknari/sviðsstjóri hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Hún lauk lagaprófi frá lagadeild HÍ árið 2001 og er með réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi frá árinu 2004.
Starfsferill: Árin 2001 til 2007 starfaði Arnþrúður sem löglærður fulltrúi hjá sýslumanninum í Hafnarfirði. Frá janúar til september 2007 var hún löglærður fulltrúi hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Frá því í september 2007 hefur Arnþrúður verið aðstoðarsaksóknari/sviðsstjóri hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.
Björn Þorvaldsson er saksóknari hjá ríkissaksóknara. Hann lauk lagaprófi frá lagadeild HÍ árið 1993. Björn stundaði nám í evrópurétti við háskólann í Lundi árið 2001 og lauk í kjölfarið LL.M. í evrópurétti við sama háskóla árið 2002. Þá stundaði hann framhaldsnám í mannréttinda- og alþjóðalögum við Raoul Wallenberg-stofnunina í Lundi árin 2002 til 2003. Árið 1996 lauk Björn námskeiði um umhverfismál frá sjónarhóli refsi- og skaðabótaréttar við endurmenntunarstofnun HÍ. Árið 2004 lauk Björn námskeiði um rannsókn alvarlegra fjármunabrota á vegum framhaldsdeildar Lögregluskóla ríkisins.
Starfsferill: Fulltrúi hjá sýslumanninum í Hafnarfirði frá 1993 til september 1998. Frá september 1998 til júní 2000 var Björn nefndaritari á nefndasviði Alþingis og aðstoðarforstöðumaður sviðsins frá febrúar til júní 2000. Settur sýslumaður á Hólmavík í fjórar vikur árið 2001. Löglærður fulltrúi hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra frá október 2003 til júní 2005 og staðgengill saksóknara við sama embætti til 31. desember 2006. Settur saksóknari hjá ríkissaksóknara frá 1. janúar til 30. júní 2007 og settur saksóknari efnahagsbrota hjá embætti ríkislögreglustjóra frá 1. júlí 2007 til 31. desember sama ár. Frá 1. janúar 2008 og til 1. maí 2009 var Björn aðstoðarsaksóknari og staðgengill saksóknara efnahagsbrota. Frá 1. apríl 2009 var Björn skipaður saksóknari við embætti ríkissaksóknara.
Hólmsteinn Gauti Sigurðsson er lögfræðingur yfirstjórnar LRH/aðstoðarsaksóknari embættis sérstaks saksóknara. Hólmsteinn Gauti lauk laganámi frá lagadeild HÍ árið 1999 og hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 2005. Lauk framhaldsnámi í rannsóknum og saksókn flókinna fjármuna- og efnahagsbrota við lögregluháskólann í Osló í janúar 2009.
Starfsferill: Löglærður fulltrúi lögreglustjórans og sýslumannsins á Ísafirði 1999 til 2000 og síðar löglærður fulltrúi lögreglustjórans og sýslumannsins í Hafnafirði, 2000 til 2002. Árin 2002 til 2006 var Hólmsteinn deildarlögfræðingur á dómsmála- og löggæsluskrifstofu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Þar af var Hólmsteinn settur lögreglustjóri og sýslumaður á Höfn í sex vikur sumarið 2005. Hólmsteinn var löglærður fulltrúi sýslumannsins í Kópavogi og lögreglustjórans í tvo mánuði árið 2007 og lögfræðingur yfirstjórnar embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 1. janúar 2007. Aðstoðarsaksóknari og löglærður fulltrúi embættis sérstaks saksóknara frá 1. febrúar 2009, í leyfi frá embætti LRH.
Dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu,
6. október 2009