Styrkir úr Sprotasjóði
Mennta- og menningarmálaráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Sprotasjóði leik-, grunn- og framhaldsskóla. Hlutverk sjóðsins er að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi.
Við mat á umsóknum verða eftirfarandi viðmið höfð að leiðarljósi; skýr markmið verkefnis, verkefnisstjórn vel skilgreind, raunsæjar kostnaðar-, verk- og tímaáætlanir og framlag samstarfsaðila sé tryggt og vel skilgreint. Litið verður til þess hvort afrakstur verkefnisins sé líklegur til að hafa jákvæð áhrif á íslenskt skólastarf.
Einnig verður skoðað hvernig verkefnin falla að áherslusviðum Sprotasjóðs. Verkefni sem falla utan áherslusviðs fá sérstaka umfjöllun í ljósi áhrifa á íslenska menntun.
Áherslusvið sjóðsins verða að þessu sinni:
- Sveigjanleiki og fjölbreytni í námi og kennsluháttum
- Lestrarkennsla og læsi í víðum skilningi.
Fyrir skólaárið 2009–2010 verða til úthlutunar allt að 50 milljónir kr. og er umsóknarfrestur til 6. nóvember næstkomandi. Fyrsta úthlutun fer fram í desember 2009.
Skólastjórnendur, kennarahópar og einstakir kennarar geta sent inn umsókn í Sprotasjóð. Aðrir aðilar geta sótt um þróunarverkefni í samstarfi við skóla. Í þeim tilfellum skal staðfesting á þátttöku skóla fylgja umsókn.
Vakin er sérstök athygli á að umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á umsóknavef Stjórnarráðsins á vefslóðinni http://umsokn.stjr.is. Aðgangur er veittur á kennitölu umsækjanda (ekki kennitölu skóla) og verður lykilorð sent viðkomandi á netfang sem hann gefur upp við nýskráningu. Lykilorðinu má breyta eftir innskráningu með því að opna Mínar stillingar.
Umsækjendur skrá sig inn með kennitölu og lykilorði og velja Sprotasjóð undir flipanum Umsóknir. Svæði merkt rauðri stjörnu verður að fylla út.
Nánari upplýsingar um Sprotasjóð veitir Sigrún Vésteinsdóttir hjá Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri í síma 4608090 eða í tölvupósti á [email protected]