Hoppa yfir valmynd
12. október 2009 Innviðaráðuneytið

Grípa má til margs konar aðgerða

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði í ávarpi á umhverfisþingi síðastliðinn föstudag að brýnt væri að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og nefndi ýmsar aðgerðir sem grípa mætti til í þeim efnum á sviði samgöngumála.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra flutti ávarp á umhverfisþingi.
Frá umhverfisþingi sem haldið var 9. og 10. október.

Kristján L. Möller flutti ávarp á málstofu umhverfisþings um umhverfismál í sveitarfélögum og minnti í upphafi á það markmið ríkisstjórnarinar að draga skuli úr losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 15% til ársins 2020 miðað við árið 1990. ,,Við þurfum að ná árangri og getum farið ýmsar leiðir til þess,” sagði ráðherrann.

Meðal aðgerða sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra nefndi er að efla almenningssamgöngur til dæmis með breyttri forgangsröðun í samgönguáætlun. Efla þyrfti leiðakerfið, greiða leið strætisvagna með forgangsakreinum svo og að bæta aðstöðu hjólandi og gangandi vegfarenda. Þá nefndi ráðherra að með skattalagabreytingum mætti stuðla að því að landsmenn keyptu vistvæna bíla og hann minnti á það markmið ríkisstjórnarinnar að um 35% bíla í eigu ríkisins skuli knúnir vistvænum orkugjöfum í árslok 2012.

Ráðherra nefndi einnig að gera mætti það að skilyrði fyrir leyfi til sérleyfis- og leigubílaaksturs, en Vegagerðin sér um útgáfu þeirra, að notuð væru vistvæn ökutæki. Er þar meðal annars vísað til reynslu Svía í þessum efnum. Einnig minnti hann á tilraunir með notkun repju til íblöndunar í eldsneyti og hann sagði að veita þyrfti sveitarfélögum heimild til að skilgreina umhverfissvæði þar sem ökutæki sem ekki fylla tiltekna mengunarstaðla mega ekki aka.

Í lok ræðu sinnar greindi ráðherra frá umhverfisstefnu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins þar sem settar eru fram reglur um innkaup, notkun á prenturum, vistvænum efnum og fleiru. Þá eru starfsmenn hvattir til að nýta sér vistvænar samgönguleiðir og þannig greiðir ráðuneytið strætókort fyrir þá sem nýta sér almenningssamgöngur. Ráðherra sagði brýnt að halda áfram að vekja vitund samfélagsins á mikilvægi umhverfismála og taka skref til að bæta umhverfið enn frekar með samhentu átaki.

Kristján L. Möller flutti ávarp á umhverfisþingi síðastliðinn föstudag þar sem hann ræddi um ýmsar aðgerðir sem grípa má til á samgöngusviðinu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra flutti ávarp á umhverfisþingi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta