Samkomulag stjórnvalda við Landsbanka Íslands um uppgjör
Fréttatilkynning nr. 69/2009
Samkomulag á milli íslenskra stjórnvalda, skilanefndar Landsbanka Íslands hf. og Landsbankans (NBI hf) um uppgjör á eignum og skuldum vegna skiptingar bankans hefur verið undirritað. Fulltrúar helstu kröfuhafa hafa tekið þátt í samningaviðræðunum.
Samkomulagið gerir ráð fyrir að Landsbankinn (NBI hf) gefi út skuldabréf til gamla bankans að fjárhæð 260 milljarðar króna til 10 ára. Skuldabréfið er gengistryggt og tryggir Landsbankanum þannig erlenda fjármögnun. Þá er gert ráð fyrir að gefin verði út hlutabréf til gamla bankans að fjárhæð 28 milljarðar króna sem svarar til um 20% heildarhlutafjár Landsbankans (NBI hf).
Heildarfjárhæð skuldabréfsins og hlutabréfanna samsvarar mati Landsbankans (NBI hf) á yfirteknum eignum umfram skuldir, en er lágmarksverðmæti eignanna að mati skilanefndar og ráðgjafa hennar. Fari svo að verðmæti yfirfærðra eigna reynist meira en mat Landsbankans (NBI hf) gerir ráð fyrir mun bankinn gefa út viðbótarskuldabréf til gamla bankans sem gæti numið um 90 milljörðum króna, en þess í stað fengi ríkissjóður áðurnefnd hlutabréf að fjárhæð 28 milljarðar til sín að miklu leyti. Lokamat verður lagt á eignirnar í árslok 2012.
Með samkomulaginu verður eignarhlutur ríkissjóðs í Landsbankanum (NBI hf) ekki lægri en 80% en gæti orðið töluvert hærri ef efnahagsþróun reynist hagstæð fram til loka ársins 2012 sem yrði til þess að nýi bankinn gæfi út viðbótarskuldabréf .
Áætlanir gera ráð fyrir að hlutafé Landsbankans (NBI hf) verði um 155 milljarðar króna og mun ríkissjóður leggja fram 127 milljarða króna í formi ríkisskuldabréfa. Áður var áætlað að ríkissjóður þyrfti að leggja fram 140 milljarða króna í hlutafé og verður fjárþörf ríkisins vegna endurreisnar Landsbankans því heldur minni en áætlað var. Um er að ræða bráðabirgðatölur en Fjármálaeftirlitið á eftir að leggja mat sitt á eiginfjárþörfina á grundvelli uppfærðra viðskiptaáætlana bankans.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra:
„Það samkomulag sem nú liggur fyrir við skilanefnd Landsbanka Íslands er eitt af lokaskrefum ríkisstjórnarinnar í endurreisn bankanna þriggja. Samkomulagið uppfyllir öll meginmarkmið ríkisstjórnarinnar um að við stöndum nú að nýju uppi með traust bankakerfi, að sanngjarnt uppgjör við kröfuhafa hafi farið fram og að útlit er fyrir ásættanlega ávöxtun á eiginfjárframlagi ríkisins."
Lárentsínus Kristjánsson formaður skilanefndar Landsbanka Íslands:
„Niðurstaðan er mjög ásættanleg fyrir Skilanefndina og er skref fram á við í öllu verkferlinu. Mikil vinna hefur verið lögð í samningana og vil ég nota tækifærið til að þakka öllum sem lögðu hönd á plóg."
Ásmundur Stefánsson bankastjóri Landsbankans:
„Það er ánægjulegt að finna það traust sem viðsemjandi okkar hefur á rekstri bankans. Hann kýs að eignast 28 milljarða króna hlut í honum eða allt að 20% heildarhlutafjár. Þá er mikilvægt fyrir rekstur bankans á næstu árum að hafa fengið trygga langtímafjármögnun í erlendum myntum. Nú liggur efnahagsreikningur bankans fyrir og ljóst er að Landsbankinn er með styrk til að takast á við þau erfiðu verkefni sem framundan eru."
Fjármálaráðuneytinu, 12. október 2009