Hoppa yfir valmynd
13. október 2009 Forsætisráðuneytið

Færeyingar eru vinir í raun

Kaj Leo Johannesen lögmaður Færeyja og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra
Kaj Leo Johannesen lögmaður Færeyja og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra

Á viðræðufundi Kaj Leo Johannesens lögmanns Færeyja og Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á Þingvöllum í dag var fjallað um ýmis sameiginleg mál Færeyinga og Íslendinga á sviði heilbrigðismála, mennta- og háskólasamvinnu og ekki síst samskipta í sjávarútvegsmálum. Lögð var áhersla á að gerður yrði tvíhliða samningur milli þjóðanna um heilbrigðismál á grundvelli gildandi viljayfirlýsingar, en samstarf er þegar hafið milli Landspítala og Landssjúkrahúss Færeyja. Þá var skipst á skoðunum um reynslu þjóðanna af því að ganga í gegnum kreppu og glíma við fólksflótta. Einnig var sérstaklega rætt um fram kvæmd Hoyvíkursáttmálans milli Færeyja og Ísland.

Jóhanna Sigurðardóttir ítrekaði þakkir Íslendinga til Færeyinga vegna lánveitingar þeirra til Íslands og sagði m.a: “Þverpólitísk samstaða Færeyinga um þetta lán, sem veitt var skilyrðislaust þegar allir aðrir snéru við okkur baki í fyrra, sýnir hug þeirra betur en nokkur orð. Þessi ákvörðun Færeyinga sýndi að þeir eru vinir í raun. Það kom ekki á óvart og því gleymum við ekki.”

Kaj Leo Johannesen þakkaði fyrir innilegar móttökur á Íslandi. Tilgangurinn með heimsókninni væri að bera saman bækur um ástandið í stjórnmálum og efnahagsmálum og ræða framtíðarmálefni þjóðanna. Með samstarfi stæðu vinir sterkari en ella í heiminum. “Í Færeyjum er fylgst grannt með framgangi mála hjá frændþjóð okkar Íslendingum. Sérstaklega nú þegar Ísland hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. Úrslit mála í aðildarferlinu gætu haft veruleg áhrif á evrópupólitíska umræðu í Færeyjum.”

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lagði áherslu á að samstarfsmöguleikar milli Íslands og Færeyja hefðu ekki verið nýttir til fullnustu, né heldur til aukins samstarfs þjóða í Norðvestur-Atlantshafi. Í viðræðum við Evrópusambandið gætu einnig falist nýjir möguleikar á þessu sviði og haft yrði náið samráð við Færeyinga um Evrópumálin á næstu misserum.

Reykjavík 13. október 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta