Hoppa yfir valmynd
13. október 2009 Dómsmálaráðuneytið

Ráðherra heimsótti embætti sérstaks saksóknara

Ragna Árnadóttir og Ólafur Þór Hauksson.
Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra og Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.

Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra heimsótti embætti sérstaks saksóknara í gær, 12. október 2009. Embættið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum vikum, starfsfólki hefur verið fjölgað, þrír nýir saksóknarar skipaðir og starfsemin verið flutt í ný og rúmbetri húsakynni.

Á fundi ráðherra með Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara, og starfsmönnum hans kom fram að þar eru 49 mál í rannsókn og reiknar Ólafur með að þeim eigi enn eftir að fjölga til muna. Alls starfa nú 17 manns hjá embættinu, sérfræðingar úr ýmsum greinum. Auk þeirra eru um þessar mundir þrír sérfræðingar frá Noregi að störfum við rannsóknina hér á landi og annað teymi í Frakklandi. Gert er ráð fyrir því að starfsmönnum eigi eftir að fjölga enn frekar og muni hátt í 30 manns starfa að rannsókninni á næstunni.

Þá voru skipaðir þrír nýir saksóknarar við embættið hinn 6. október síðastliðinn, þau Arnþrúður Þórarinsdóttir, aðstoðarsaksóknari/sviðsstjóri hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá ríkissaksóknara, og Hólmsteinn Gauti Sigurðsson, lögfræðingur yfirstjórnar LRH/aðstoðarsaksóknari embættis sérstaks saksóknara. Hólmsteinn Gauti hefur starfað við embættið frá stofnun þess en Arnþrúður og Björn hefja þar störf 15. október næstkomandi.

Embætti sérstaks saksóknara hefur tekið upp formlegt samstarf við Serious Fraud Office (SFO), stofnun sem starfar við hlið efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar er rannsakar meiri háttar efnahagsbrot. Fulltrúar frá embættinu hafa einnig fundað með lögreglunni í Lúxemborg og saksóknara efnahagsbrota þar um hugsanlegt samstarf. Þá er embættið í samstarfi við norska efnahagsbrotaembættið auk þess að eiga samskipti við lögreglu- og saksóknarayfirvöld í fleiri nágrannaríkjunum.

Embættið var flutt í ný húsakynni fyrir nokkrum vikum, úr Borgartúni 7 á Laugaveg 166. Nýja húsnæðið rúmar mjög vel þá starfsemi sem embættið hefur á hendi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta