Ýmsar tillögur um umferðarfræðslu í skólum
Starfshópur um umferðarfræðslu í skólum hefur nýverið skilað skýrslu til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Unnið úr tillögum sem fram koma í skýrslunni á næstunni í því skyni að efla umferðarfræðslu í skólum.
Í mars 2007 skipaði Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, starfshóp til að móta tillögur um útfærslu og tilhögun umferðarfræðslu í skólum í samráði við hagsmunaaðila. Starfshópurinn hefur nú skilað lokaskýrslu til ráðherra, „Tilhögun umferðarfræðslu í skólum; markmið og leiðir”. Áfangaskýrsla hópsins kom út í maí 2008.
Ennfremur var Dr. Valdimar Briem, sálfræðingi falið að setja fram tillögur um fyrirkomulag umferðarfræðslu á mismunandi skólastigum, en sú skýrsla kom út í desember 2008.
Eins og meðfylgjandi skýrsla ber með sér er umfang og inntak umferðarfræðslu í skólum skilgreint, allt frá leikskóla og upp í framhaldsskóla. Settar eru fram margvíslegar tillögur til úrbóta í málefnum umferðarfræðslu í skólum. Jafnframt er greint á milli ábyrgðarsviðs menntamálaráðuneytis og samgönguráðuneytis að því er varðar núverandi fyrirkomulag málaflokksins og mikilvægi þess undirstrikað að með aukinni samvinnu hagsmunaaðila og nýjum vinnubrögðum sé mögulegt að breyta umferðarhegðun barna og auka þannig öryggi þeirra í umferðinni og fækka slysum.