Hoppa yfir valmynd
15. október 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Sameiginleg fréttatilkynning frá fjármálaráðuneytinu, Íslandsbanka og skilanefnd Glitnis: Kröfuhafar eignast 95% hlutafjár í Íslandsbanka

Fréttatilkynning nr. 70/2009

  • Glitnir, fyrir hönd kröfuhafa, eignast 95% hlutafjár í Íslandsbanka.
  • Glitnir mun skipa 4 stjórnarmenn af 5 í bankanum, íslenska ríkið mun skipa einn stjórnarmann.
  • Niðurstaðan mun styrkja Íslandsbanka og treystir samstarf bankans við erlendar fjármálastofnanir.
  • Framlag ríkissjóðs verður mun lægra en upphaflega var áætlað, sem mun lækka skuldastöðu ríkissjóðs.
  • Bankinn stendur á traustum grunni og mun áfram vera í forystu við að leita lausna fyrir viðskiptavini.

Skilanefnd Glitnis hefur, fyrir hönd kröfuhafa, ákveðið að nýta sér ákvæði í samningi við íslenska ríkið og eignast 95% hlutafjár í Íslandsbanka. Þessa ákvörðun tók skilanefnd Glitnis eftir ítarlega áreiðanleikakönnun sem framkvæmd hefur verið af hálfu ráðgjafa Glitnis á rekstri Íslandsbanka.

Með þessu lýkur uppgjöri vegna þeirra eigna sem færðar voru frá Glitni til Íslandsbanka við fall bankanna í október á síðasta ári. Samkvæmt samningum skilanefndar Glitnis og íslenska ríkisins sem undirritaðir voru þann 13. september síðastliðinn mun ríkið jafnframt veita bankanum 25 milljarða króna víkjandi lán til að styrkja eiginfjár- og lausafjárstöðu bankans.

Þetta er mikilvægur áfangi í framtíðaruppbyggingu íslensks fjármálakerfis. Aðkoma kröfuhafa að Íslandsbanka mun styrkja samstarf bankans við erlendar fjármálastofnanir. Þá hefur þessi niðurstaða það einnig í för með sér að kostnaður ríkisins vegna fjármögnunar bankans verður tæpum 37 milljörðum króna minni en ella.

Ákvörðun skilanefndarinnar er tekin með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins. Skilanefnd Glitnis mun fara með eignarhald bankans fyrir hönd kröfuhafa í gegnum sérstakt eignarhaldsfélag. Glitnir mun skipa 4 stjórnarmenn af 5 í stjórn bankans en íslenska ríkið mun skipa einn stjórnarmann.

Samkvæmt samningum skilanefndar Glitnis og stjórnvalda frá 13. september síðastliðnum gátu kröfuhafar í Glitni valið milli tveggja kosta. Annars vegar að eignast 95% hlut í Íslandsbanka og hins vegar að fá greiðslu í formi skuldabréfa útgefnum af Íslandsbanka og eignast kauprétt á allt að 90% af hlutafé bankans á næstu fimm árum.

Það er niðurstaða skilanefndar Glitnis eftir ítarlega skoðun að yfirtaka á 95% hlut í Íslandsbanka muni skila mestum verðmætum til kröfuhafa. Þetta mat er meðal annars byggt á áliti þeirra ráðgjafa sem Glitnir hefur unnið með, en meðal þeirra má nefna sérfræðinga frá fjárfestingabankanum UBS og lögfræðifyrirtækinu Morrison & Foerster.

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis:
„Skilanefndin lét framkvæma ítarlegt mat á þeim tveimur kostum sem kröfuhöfum stóðu til boða. Það er samdóma álit skilanefndarinnar og ráðgjafa hennar að yfirtaka á 95% hlut í Íslandsbanka sé betri kostur þar sem góðar líkur eru á því að sú leið geti skilað kröfuhöfum meiri verðmætum.“

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra:
„Það er fagnaðarefni að Glitnir, í samráði við kröfuhafa, taki nú ákvörðun að eignast íslenskan banka. Þessi ákvörðun er skýrt merki um að erlendir fjárfestar sjá nú fyrir endann á þeirri alþjóðlegu fjármálakreppu sem við höfum glímt við undanfarið ár. Nú er verið að leggja lokahönd á endurreisn íslenska bankakerfins sem er að verða fullbúið til að þjónusta heimilin og styðja við uppbyggingu atvinnulífsins.

Mikilvægt er að fjárútlát ríkissjóðs verða miklum mun minni en annars hefði verið, þó ég sé þeirrar skoðunar að eignarhald ríkisins á Íslandsbanka hefði verið ágætur kostur fyrir ríkissjóð og almenning. Ríkissjóður mun leggja bankanum til eigið fé og ennfremur lausafjárstuðning, ef á þarf að halda. Bankinn stendur því uppi með afar trausta fjárhagsstöðu og á að geta þjónað viðskiptavinum sínum, almenningi jafnt sem fyrirtækjum, af kostgæfni.“

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:
„Við fögnum þessari niðurstöðu. Ég lít á þetta sem traustsyfirlýsingu við Íslandsbanka enda hafa ráðgjafar kröfuhafa framkvæmt ítarlega áreiðanleikakönnun á rekstri bankans. Þetta mun hafa jákvæð áhrif á starfsemi okkar og er mikilvægur liður í að byggja upp nýjan banka. Ég vil taka fram að þetta hefur  engin áhrif á almenna starfsemi Íslandsbanka. Við munum halda okkar striki í því að vera í forystu um að leita lausna fyrir okkar viðskiptavini. Fyrir Íslandsbanka og allt starfsfólkið okkar sem lagt hefur á sig þrotlausa vinnu er þetta merkisdagur.“

Fjármálaráðuneytinu 15. október 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta