Drög að frumvarpi til nýrra laga um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði
Nefnd sem ráðherra skipaði til að fara yfir lagaákvæði laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði hefur samið drög að frumvarpi til nýrra laga um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Tilefnið var að kanna hvort ákvæði laganna væru nægilega skýr varðandi fjárfestingarheimildir sjóðanna, óhæði rekstrarfélaga og um stöðu fagfjárfestasjóða. Var nefndinni ætlað að hafa til hliðsjónar þá þróun sem verið hefur á regluverki verðbréfa- og fjárfestingarsjóða í þeim löndum sem Ísland hefur helst borið sig saman við, að teknu tilliti til gerða ESB á þessu sviði.
Formaður nefndarinnar er Ástríður Jóhannesdóttir lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu. Aðrir nefndarmenn eru Guðrún Áslaug Jósepsdóttir lögfræðingur, tilnefnd af Fjármálaeftirlitinu, Sigurður Guðmundsson lögfræðingur hjá Nýja Kaupþingi, tilnefndur af Samtökum fjármálafyrirtækja og Vilhjálmur Bjarnason viðskiptafræðingur, tilnefndur af Samtökum fjárfesta.
Almenningi er nú gefinn kostur á því að koma á framfæri athugasemdum um frumvarpsdrögin. Er þess óskað að athugasemdir berist fyrir 30. október næstkomandi á netfangið: [email protected]. Ráðuneytið mun við fullvinnslu frumvarpsins hafa innkomnar athugasemdir til hliðsjónar, en fyrirhugað er að frumvarpið verði lagt fram á haustþingi.
Frumvarp til laga um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði