Hoppa yfir valmynd
16. október 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frumvarp um aðgerðir vegna skuldavanda

Frumvarp um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins var lagt fram á Alþingi í dag.

Markmið fyrirhugaðrar lagasetningar er að hraða endurreisn efnahagslífsins í kjölfar banka- og gjaldeyrishrunsins þannig að jafnvægi komist á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindingar einstaklinga, fyrirtækja og heimila hins vegar. Í frumvarpinu er kveðið á um leiðir og viðmið til að ná þessu markmiði.

Frumvarpið skiptist efnislega í tvo hluta. Annars vegar er settur almennur tímabundinn rammi um þá sértæku skuldaaðlögun sem þarf að eiga sér stað í samningum skuldara og kröfuhafa vegna breyttra efnahagsaðstæðna. Hins vegar er kveðið á um þær lagabreytingar sem þarf að gera til þess að gera almenna leiðréttingu greiðslubyrði mögulega. Þetta eru breytingar á lögum nr. 63/1985 um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga og breytingar á lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál.

Fyrirhuguð breyting á lögum um greiðslujöfnun felst í því að þak verður sett á lengingu verðtryggðra lána vegna greiðslujöfnunar. Þá er áformað að greiðslujöfnun nái sjálfkrafa til verðtryggðra íbúðalána nema lántakar óski þess sérstaklega að svo verði ekki.  

Samkvæmt frumvarpinu verður kröfuhöfum gert kleift að færa fjárskuldbindingar einstaklinga, fyrirtækja og heimila niður til raunvirðis. Ekki er gert ráð fyrir flatri niðurfellingu skulda en opnað er á möguleika eftirlitsskyldra aðila, einkum lánastofnana, til að lækka höfuðstól krafna við afnám gengis- eða verðtryggingar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Meginreglan er þó sú að tekið skuli á vanda hvers skuldara fyrir sig, hvort sem um er að ræða einstakling eða fyrirtæki.

Frumvarpið tekur til allra kröfuhafa sem skulu setja sér reglur um framkvæmd niðurfellingarinnar og birta þar sem þær eru öllum aðgengilegar.

Tenging frá vef ráðuneytisins Frumvarp til laga um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta