Hoppa yfir valmynd
20. október 2009 Dómsmálaráðuneytið

Frestun frávísunar samþykkt

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefur orðið við tilmælum Mannréttindadómstóls Evrópu dags. 16. október sl. um að fresta frávísun eins hælisleitanda til Grikklands á grundvelli 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins. Um er að ræða einn fjögurra hælisleitenda sem frávísað var til Grikklands í lok september en hann er enn hér á landi.

Niðurstaða ráðuneytisins um að senda mál þessara fjögurra hælisleitenda til efnismeðferðar í Grikklandi er í samræmi við þau almennu viðmið sem gilda um mál af þessum toga og kynnt voru í júní síðastliðnum, þ.e. að skoðað verði hvert tilvik fyrir sig og aðstæður viðkomandi einstaklings metnar áður en ákvörðun er tekin um endursendingu til Grikklands. Á grundvelli þessara sömu viðmiða hefur t.a.m. mál fjölskyldu með ungbarn verið tekið til meðferðar hér á landi sem ella hefði farið til Grikklands.

Viðkomandi hælisleitandi kærði frávísunina til Mannréttindadómstólsins síðastliðinn föstudag, 16. október, og bárust ofangreind tilmæli frá dómstólnum sama dag. Mun dómsmála- og mannréttindaráðuneytið fresta frávísun þar til niðurstaða liggur fyrir um það hvort málið verði tekið til efnislegrar meðferðar hjá Mannréttindadómstólnum eða dómur í málinu gengur, taki hann málið til meðferðar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum