Ríkisstjórnin fordæmir brot gegn friðhelgi einkalífs og heimila
Réttur fólks til að mótmæla stjórnvöldum og gagnrýna aðgerðir þeirra er mikilvægur þáttur í lýðræðislegu samfélagi. Rétturinn til þess að koma saman og mótmæla eða láta skoðun sína í ljós með öðrum hætti er varinn í stjórnarskránni m.a. í tjáningarfrelsis- og félagafrelsisákvæðum 73. gr. og 74. gr. hennar. Hann er einnig áréttaður í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem Ísland er aðili að.
Rétturinn til mótmæla miðast þó við að mótmælin fari skipulega fram, séu friðsamleg og rúmist innan allsherjarreglu í samfélaginu.
Að undanförnu hafa verið framin skemmdarverk á heimilum einstaklinga í skjóli nætur. Einnig hefur verið gerð aðför að einkaheimilum þar sem tilgangurinn er sá að ógna viðkomandi með aðsúgi og háreisti. Milli slíks athæfis annars vegar og skipulegra mótmæla hins vegar verður að draga skýra markalínu.
Þrýstingur, ógnanir eða hótanir við heimili fólks til þess að hafa áhrif á ákvarðanir er óviðunandi í réttarríki. Aðfarir að heimilum, sem vekja ótta hjá börnum og öðru heimilisfólki þeirra sem þær beinast að, eiga aldrei rétt á sér. Ríkisstjórnin fordæmir skilyrðislaust og með skýrum hætti það ofbeldi sem felst í því að ráðist sé að friðhelgi einkalífs og heimila. Ríkisstjórnin hvetur til samstöðu um að stöðva framangreinda óheillaþróun.
Reykjavík 20. október 2009