Hoppa yfir valmynd
21. október 2009 Matvælaráðuneytið

Erlendar skuldir Íslands

Nýlegar fréttir fjölmiðla og fullyrðingar um að erlendar skuldir þjóðarbúsins séu óviðráðanlegar eiga ekki við rök að styðjast. Fullyrt hefur verið í fjölmiðlum að viðmið um viðráðanlega skuldastöðu séu til að mynda rofin, ef erlendar skuldir Íslands eru komnar í um 240% af landsframleiðslu. Í þessu sambandi er vert að árétta nokkur atriði um alþjóðlegan samanburð og eðli skuldabyrðarinnar.

Vergar skuldir landsins lækka við hrun viðskiptabankanna þar sem stór hluti skulda afskrifast í þrotabúum þeirra.  Fyrir bankahrunið námu erlendar skuldir tífaldri landsframleiðslu (VLF) og erlendar skuldir bankanna einna um sjöfaldri landsframleiðslu samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands.

Fjölmörg lönd Vestur-Evrópu eru með þyngri verga skuldastöðu í hlutfalli við landsframleiðslu en Ísland.  Nægir að nefna að stærstu ríki ESB, Bretland, Þýskaland og Frakkland bera öll erlendar skuldir sem eru meiri en VLF og ríflega það. Samkvæmt gögnum frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD), Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF), Alþjóðabankanum (World Bank) og Greiðslumiðlunarbankanum (BIS) eru nokkrar Evrópuþjóðir með hreina skuldastöðu sem er  um eða yfir 200% af VLF, þeirra á meðal Austurríki, Belgía, Portúgal, Holland, Sviss, Bretland og Írland.

Ríki

Vergar skuldir í árslok 2008 í

hlutfalli við verga landsframleiðslu 2008

Ástralía

77%

Austurríki

202%

Belgía

269%

Kanada

52%

Tékkland

37%

Danmörk

173%

Finnland

125%

Frakkland

173%

Þýskaland

141%

Grikkland

144%

Ungverjaland

138%

Írland

884%

Ítalía

101%

Holland

282%

Noregur

105%

Pólland

46%

Portúgal

199%

Spánn

145%

Svíþjóð

129%

Sviss

261%

Tyrkland

38%

Bretland

341%

Bandaríkin

96%

Heimildir: OECD StatsExtract og JEDH gagnagrunnurinn 

Hlutfall skulda af þjóðarframleiðslu Íslendinga er að líkindum verulega ofmetið um stundarsakir þar sem erlendar skuldir umreiknaðar í krónur hafa hækkað vegna gengisfalls en landsframleiðsla dregst saman tímabundið.  Þar sem reikna má með að krónan styrkist til lengri tíma litið og landsframleiðsla vaxi að nýju mun draga úr þessari hlutfallslegu byrði.

Eðlilegra viðmið í þessari umræðu væri hrein eignarstaða ríkisins fremur en verg skuldastaða þjóðarinnar. Ríkið ber ekki ábyrgð á þessum skuldum einkaaðila. Það sem einkaaðilar geta ekki greitt erlendum kröfuhöfum verður að líkindum afskrifað með einum eða öðrum hætti. Slíkar skuldir munu því ekki verða þjóðinni ofviða.  Á það ber einnig að líta þegar rætt eru um skuldabyrði íslenska ríkisins í erlendum samanburði að flest grannríki standa frammi fyrir lífeyrisskuldbindingum í framtíðinni sem hafa ekki verið fjármagnaðar. Íslenska ríkið á hinsvegar í reynd varasjóð utan efnahagsreiknings sem er óskattlagt framlag í lífeyrissjóð, en það fé og ávöxtun þess mun bera skatt við útgreiðslu. Þannig er hrein eignastaða ríkisins í reynd töluvert betri ef litið er til lengri tíma en hún virðist við fyrstu sýn.

 Af ofansögðu er ljóst að það er ofsagt að skuldir þjóðarbúsins séu komnar fram yfir endanleg mörk sem ekki verður við ráðið, ef skuldabyrðin er skoðuð í alþjóðlegum samanburði.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta