Hoppa yfir valmynd
22. október 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Verðum ekki ginningarfífl stóriðju- og útgerðarauðvalds

Við eigum að setja viðskiptalífinu skýr mörk og verða ekki ginningarfífl stóriðju og útgerðarauðvalds á sama hátt og við eltum áður hagsmuni bankadrengja og útrásargosa sagði Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherra þegar hann ávarpaði ársfund Alþýðusambands Íslands í dag.

Greiðum fyrir atvinnuuppbyggingu en sætum ekki afarkostum

Ráðherra ræddi um gagnrýni sem fram hefur komið á ákvörðun umhverfisráðherra varðandi raflínulagnir og sagði ódýrt að kenna þeirri ákvörðun um tafir við framkvæmdir í Helguvík þar sem hin raunverulega ástæða væri að framkvæmdaaðilinn hefði ekki tryggt fjármagn til verkefnisins, innlend orkufyrirtæki njóti ekki lánstrausts og vafi leiki á að fullnægjandi orkukostir séu til reiðu. Ráðherra sagði enn fremur að ríkisstjórnin vilji uppbyggingu á Bakka: „En við viljum ekki afhenda einum útlendum auðhring sjálfdæmi um álitlegan nýtingarkost og gera öðrum áhugasömum fyrirtækjum ókleift að komast að borðinu. Við höfum á undanförnum árum glatað ótöldum tækifærum með aðferðafræði fortíðarinnar. Við höfum samið á forsendum álfyrirtækjanna án þess að skapa okkur samningsstöðu með nauðsynlegri samkeppni um ólíka kosti.

Þetta er mergurinn málsins. Við eigum að greiða fyrir atvinnuuppbyggingu en við eigum ekki að sæta afarkostum óforskammaðra kapítalista. Þeir vinna að einu markmiði – hámörkun arðs. Það vitum við vel af reynslu undanfarinna ára. Við eigum að standa með okkur sjálfum, setja viðskiptalífinu skýr mörk og verða ekki ginningarfífl stóriðju og útgerðarauðvalds með sama hætti og við eltum sérhagsmuni bankadrengjanna og útrásargosanna á undanförnum árum.“

Ráðherra sagði vilja til að semja við erlend fyrirtæki en ekki upp á hvaða býti sem er. Til dæmis komi ekki til greina að semja um óendanlega skattaafslætti því atvinnulíf sem ekkert leggur af mörkum til samfélagsins sé ekki upp á marga fiska. „Við getum tekið dæmi af sjávarútveginum sem hefur notið ríkulega ávaxtanna af stórfelldri gengisfellingu en kveinar samt viðstöðulítið undan hugmyndum um hóflega innköllun aflaheimilda. Afkomubati sjávarútvegsins á síðasta ári hleypur á tugum milljarða. Þessi afkomubati er fenginn með fórnum ykkar og ykkar félagsmanna. Gengisfellingin færði peninga frá íslensku launafólki til sægreifa og stóriðju. Grátkór og kveinstafir útgerða- og álfyrirtækja er háværari og ágengari á sama tíma og launafólk hefur stillt kröfum í hóf og sýnt mikið þolgæði. Það er íhugunarefni. Ef sjávarútvegur og stóriðja geta ekki þolað hóflega innköllun veiðiheimilda og hóflega auðlindaskatta er spurning hvort við séum yfir höfuð að veðja á réttan hest. Verðum við þá ekki að leita annarra kosta um framtíðaratvinnuuppbyggingu?“

Markaðurinn góður þjónn en afleitur herra

„Markaðshagkerfið kann að vera besta leiðin sem við höfum fundið til þess að stýra framleiðslu og neyslu en blind trú á það er ekki skynsamleg. Hagsveiflur og eignabólur eru óhjákvæmilegir fylgifiskar þess og nauðsynlegt er að því sé stjórnað með skilvirkum hætti. Innistæðulausar skattalækkanir og hugmyndafræðileg óbeit Sjálfstæðisflokksins á opinberum afskiptum af hagkerfinu eru stærstu ástæður þess stjórnleysis í efnahagsmálum sem leiddu til hrunsins. Markaðurinn er góður þjónn en afleitur herra. Það eru sígild sannindi þótt þau hafi gleymst í lestarferð Eimreiðarhópsins undanfarin 20 ár.“

Fimm meginverkefni eru kjarni efnahagsáætlunar stjórnvalda

Ráðherra sagði í ræðu sinni að framundan sé að fást við fimm meginverkefni sem séu kjarni efnahagsáætlunar stjórnvalda sem unnið er að í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þessi verkefni tengjast innbyrðis og felast í því að endurreisa fjármálakerfið, takast á við vandann í ríkisfjármálum sem hrunið hefur valdið, koma gjaldeyrisviðskiptum við útlönd í frjálst horf á ný, leysa greiðslu- og skuldavanda sem skapaðist vegna efnahagshrunsins og leggja grunn að hagvexti á næstu árum.

Ráðherra reifaði hugmyndir sem unnið er að í félags- og tryggingamálaráðuneytinu og geta eflt atvinnulífið þrátt fyrir þröngan fjárlagaramma. Þar nefndi hann átak í uppbyggingu hjúkrunarheimila með breyttu fyrirkomulagi fjármögnunar. Þetta sé nauðsynleg uppbygging sem skapað geti um 1.200 ársverk á framkvæmdatímanum. Þá sé unnið að hugmyndum sem greitt geti fyrir lánsfjárframboði til húsnæðiskaupa og húsnæðisbygginga til að koma eðlilegri veltu á fasteignamarkaðinn.

Auðlinda-, orku- og umhverfismál

Það þarf að afla tekna með breiðum hætti og nýta sem flesta tekjustofna til að tryggja árangur við tekjuöflun sagði ráðherra: „Raunsætt virðist að tekjuskattslækkanir undanfarinna ára gangi til baka enda ekki innistæða fyrir þeim. Þá eru uppi áform um nýja skattstofna sem eru í samræmi við ný viðhorf og áherslur ríkisstjórnarinnar í auðlinda-, orku- og umhverfismálum. Þessum sköttum er ætlað að tryggja að þjóðin nýti auðlindir sínar með skynsamlegum hætti, njóti sameiginlega afraksturs auðlinda og að greitt sé fyrir afnot af sameiginlegum umhverfisgæðum.“

Tenging frá vef ráðuneytisins Ræðan í heild



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta