Sjö svæði sóknaráætlana
- Nýtt og stærra höfuðborgarsvæði sem þjónar öllu landinu
- Svæðaskiptingin liður í endurreisn efnahagslífsins
- Efling á getu svæða til þess að taka að sér ný verkefni
- Styrkja á samkeppnishæfni svæða og landsins í heild
Á næstu mánuðum verða mótaðar sóknaráætlanir í öllum landshlutum samkvæmt nýrri skiptingu landsins í sjö svæði sem samþykkt hefur verið í ríkisstjórn. Heimamenn á hverju svæði um sig og fjöldi hagsmunaaðila, stofnana og ráðueyta munu koma að verkinu undir forystu landshlutasamtaka og stýrihóps Sóknaráætlunar sem starfar á vegum forsætisráðuneytisins m.a. með þátttöku fimm ráðherra ríkisstjórnarinnar.
Svæðaskiptingin er hugsuð til að ná megi nauðsynlegri viðspyrnu við endurreisn efnahagslífsins. Í henni felst m.a. sýn á að nýtt og stærra höfuðborgarsvæði sem þurfi að starfa sem eina heild. Nær það frá Reykjanesi í Borgarnes og yfir á Árborgarsvæðið. Borgarnes, Akranes og Árborg eru þó jafnframt máttarstólpar á Vesturlandi og Suðurlandi og munu koma að gerð áætlana fyrir þau svæði. Tillaga að svæðaskiptingunni hefur verið unnin í samráði við ráðuneyti, landshlutasamtök og forystu Sambands sveitarfélaga.
Fjölmargir þættir munu fléttast saman við mótun sóknaráætlana í heildstæða áætlun, m.a. atvinnumál, umhverfismál, menntamál, samgöngumál, endurskipulagning opinberrar þjónustu og efling sveitarstjórnarstigsins. Ætlunin er að hver áætlun byggi á greiningu á styrkleikum og veikleikum hvers svæðis, skýrri forgangsröðun og framtíðarsýn sem góð samstaða er um.
Markmið með svæðaskiptingu þessari er að mynda stór og öflug atvinnu- og þjónustusvæði fyrir íbúa landsins. Með svæðaskiptingunni er leitast við að:
- Styrkja samkeppnishæfni svæða og landsins í heild.
- Stuðla að markvissari uppbyggingu opinberrar þjónustu um allt land og skilvirkari verkaskiptingu milli ríkis og svæða/sveitarfélaga.
- Efla getu svæða/sveitarfélaga til þess að taka að sér verkefni og þannig stuðla að aukinni valddreifingu.
- Auka samstarf sveitarfélaga og skilvirkni við nýtingu fjármagns.
- Byggja upp öflugt höfuðborgasvæði (suðvestursvæði) sem þjónar öllu landinu og styður við uppbyggingu um allt land.