Nr. 36/2009 - Stjórnun makrílveiða
Íslensk stjórnvöld hafa árum saman, án árangurs, leitað eftir því að taka þátt í heildarstjórnun makrílveiða ásamt Evrópusambandinu, Noregi og Færeyjum, þ.e. ákvörðun um leyfilegan heildarafla og skiptingu hans. Hinir aðilarnir þrír hafa hafnað að viðurkenna stöðu Íslands sem strandríkis að því er makríl varðar og gefið upp sem ástæðu að lítinn sem engan makríl sé að finna í íslenskri lögsögu. Af þessum sökum hafa íslensk stjórnvöld þurft að taka einhliða ákvörðun um árlegan afla Íslands. Þrátt fyrir stóraukna makrílgengd í íslensku lögsöguna og að íslensk skip hafi veitt 112 þúsund tonn af makríl í fyrra og svipað magn í ár, hefur það engu breytt um afstöðu Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja. Þau þverskallast við að viðurkenna Ísland sem strandríki, halda nú vikulangan fund um stjórn makrílveiða fyrir árið 2010 í Cork á Írlandi og hafa aðeins boðið Íslandi að sitja lokadag fundarins. Með þessu er augljóst að aðilarnir þrír hafna þeirri ósk Íslands að taka þátt í heildarstjórnun makrílveiðanna á næsta ári, sem við eigum fullan rétt á samkvæmt hafréttarsamningnum og úthafsveiðisamningnum. Með þessum aðgerðum eru íslensk stjórnvöld knúin til að taka enn á ný einhliða ákvörðun um aflahámark fyrir næsta ár. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, tiltekur að þá verði augljóslega litið til veiðanna undanfarin ár og jafnframt til vaxandi útbreiðslu makríls innan íslensku efnahagslögsögunnar.