Ráðherra heimsótti Fasteignaskrá Íslands og Neytendastofu
Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra heimsótti Fasteignaskrá Íslands og Neytendastofu í vikunni til að kynna sér starfsemi stofnananna. Báðar voru þær fluttar undir dómsmála- og mannréttindaráðuneytið 1. október síðastliðinn í samræmi við lög nr. 98/2009; Fasteignaskráin frá fjármálaráðuneytinu og Neytendastofa frá viðskiptaráðuneytinu.
Fasteignaskrá Íslands
Haukur Ingibergsson, forstjóri Fasteignaskrárinnar, og samstarfsfólk hans tók á móti ráðherra en nú starfa um 50 manns hjá stofnuninni, á þremur starfsstöðvum - flestir í Reykjavík, en einnig á Akureyri og Selfossi. Við þá lagabreytingu að færa forræði yfir skráningu og mati fasteigna frá fjármálaráðuneyti til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins heyra nú tvær grunnskrár landsins undir ráðuneytið því þjóðskráin var flutt þangað fyrir rúmum þremur árum. Á fundi ráðherra með forstjóra og starfsfólki voru rædd ýmis mál er varða stofnunina, meðal annars fyrirhugaða sameiningu tölvudeilda Fasteignaskrár og Þjóðskrár. Fram kom m.a. að horft er til þess að ýmis sameiginleg rekstrarmál Fasteignaskrár og Þjóðskrár, svo sem öryggismál, rekstur gagnagrunna og margvísleg hugbúnaðarþróun geti leitt til rekstrarhagræðis og lækkunar útgjalda hjá ráðuneytinu.
Fasteignaskrá geymir allar grunnupplýsingar um lönd, lóðir og spildur auk mannvirkja sem á þeim standa. Í henni er einnig að finna upplýsingar um stærðir lóða og mannvirkja, upplýsingar um byggingarefni og lýsingu á viðkomandi mannvirki, auk fasteigna- og brunabótamats. Sjá nánar um Fasteignaskrá Íslands á vefnum www.fasteignaskra.is.
Neytendastofa
Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu, tók á móti ráðherra ásamt samstarfsfólki sínu og kynnti starfsemi stofnunarinnar með þeim Þórunni Önnu Árnadóttur, sviðsstjóra neytendaréttarsviðs, og Guðmundi Árnasyni, sviðsstjóra mælifræðisviðs. Starfsemi stofnunarinnar er fjölbreytt og skiptist hún í stjórnsýslusvið, öryggissvið, neytendaréttarsvið og mælifræðisvið. Hjá Neytendastofu starfa rúmlega tuttugu manns.
Hlutverk Neytendastofu er m.a. að treysta öryggi og réttindi neytenda í viðskiptum og annast framkvæmd laga um neytendavernd. Á grundvelli ábendinga um ætluð brot á lögum á málefnsviði sínu getur Neytendastofa beitt viðurlögum s.s. stjórnvaldssektum, sölubanni eða afturköllun á vöru ef brot eru alvarleg eða hætta er á heilsutjóni. Neytendastofa annast einnig eftirlit með því mælingar í viðskiptum séu réttar og að mælitæki séu löggilt þegar það á við. Sjá nánar um Neytendastofu á vefnum www.neytendastofa.is.
'
Neytendastofa heimsótt: f.v. Guðmundur Árnason, sviðsstjóri mælifræðisviðs, Ragna Árnadóttir, Tryggvi Axelsson forstjóri og Ása Ólafsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra.