Hoppa yfir valmynd
28. október 2009 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fundar með formanni grænlensku landsstjórnarinnar

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti í dag fund með Kuupik Kleist, formanni grænlensku landsstjórnarinnar í tengslum við fund Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Urðu ráðherrarnir ásáttir um að styrkja enn frekar hin góðu tengsl Íslands og Grænlands, einkum á sviði heilbrigðisþjónustu og samgöngumála. Þá ræddu þeir umsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Utanríkisráðherra og formaður heimastjórnarinnar ræddu hvernig samstarf á sviði heilbrigðismála gæti orðið til að stytta biðlista á grænlenskum sjúkrahúsum. Í næsta mánuði mun sendinefnd frá Grænlandi heimsækja Ísland til að ræða þessa samvinnu nánar.

Þá ræddu ráðherrarnir frekara samstarf er varðar samgöngur á sjó og í lofti en framtíðarþróun samgöngumála er nú í undirbúningi á Grænlandi.

Þeir ræddu ennfremur aðildarumsókn Íslands að ESB og tenginguna við málefni Norðurslóða og voru sammála um að auka umræðu og upplýsingagjöf um málefni tengd Evrópusambandinu.

Ráðherrarnir munu hittast að nýju á næsta ári.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta