Fundur um IUU reglugerðina í Brussel 27. október 2009
Þann 1. janúar 2010 kemur til framkvæmdar reglugerð Evrópusambandsins (ESB) nr. 1005/2008. Markmið reglugerðarinnar er að leitast við að koma í veg fyrir innflutning sjávarafurða sem eiga uppruna sinn í ólöglegum veiðum (IUU-fishing) inn á markaði Evrópusambandsins. Þriðjudaginn 27. október 2009 áttu fulltrúar sjávarútvegs- og landbúnaðaráðuneytis, Fiskistofu og Matvælastofnunar fund með framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um gerð samkomulags um sérstök skilyrði við framkvæmd reglugerðarinnar með tilliti til útflutnings á íslenskum sjávarafurðum inn á markaðssvæði Evrópusambandsins og innflutnings erlendra afurða til Íslands. Reglugerðin setur þau skilyrði fyrir innflutningi sjávarafurða að svokallað veiðivottorð fylgi öllum sendingum til ESB. Með þessu sérstaka samkomulagi er gert ráð fyrir því að fyrir afurðir af íslenskum uppruna geti íslenskir útflytjendur sjálfir fyllt út sérstakt íslenskt veiðivottorð, sem byggir á upplýsingum úr vigtarnótum og verður vistað á vef Fiskistofu. Með tilkomu þessara vottorða þarf að vera tryggt að upplýsingar um löndunardagsetningu og veiðiskip fylgi fiski/afurðum allt til útflutnings þar sem vottorðin byggja á þessum upplýsingum. Útflytjendur munu þurfa að sjá um að fylla út vottorðin og skila þeim rafrænt til Fiskistofu og senda það síðan á pappír eða rafrænt, eftir samkomulagi við innflutningsaðila, með öllum sendingum sem fara til Evrópusambandsins. Jafnframt munu innflytjendur á afla/afurðum veiddum af skipum Evrópusambandsins, sem stendur til að endur útflytja, þurfa að taka á móti sambærilegum vottorðum frá flaggríki veiðiskipsins. Stefnt er að því að undirrita samkomulagið fyrir lok nóvembermánaðar, í framhaldi af því mun kerfið vera kynnt nákvæmlega. Framkvæmdastjórn ESB hefur gert sams konar samkomulag um framkvæmd reglugerðarinnar við Noreg og á í tvíhliða viðræðum við fleiri ríki utan Evrópusambandsins sem enn hefur ekki verið lokið.