Hoppa yfir valmynd
30. október 2009 Utanríkisráðuneytið

Vel sóttur fundur um mansalsmál með fulltrúa ÖSE

Fjölmenni sótti fund um mansalsmál sem utanríkis- og dóms- og mannréttindaráðuneyti stóðu að í dag. Á fundum bar varamanssalsfulltrúi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, lof á aðgerðaráætlun stjórnvalda í mansalsmálum.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, sem opnaði fundinn, minnti í upphafi á þá áherslu sem ríkisstjórnin leggur á baráttuna gegn mansali og minnti í því sambandi á aðgerðaráætlunina. Dró hann m.a. athygli á nauðsyn þess að alþjóðlegir sáttmálar, t.d. Palermó-sáttmálinn, tækju gildi, en að því væri stefnt á yfirstandandi þingi.


Ruth Pojman, varamansalsfulltrúi ÖSE gerði grein fyrir aðgerðum stofnunarinnar í baráttunni gegn mansali og ræddi reynslu annarra landa. Bar hún lof á aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda, sem hún sagði innihalda þá þætti sem nauðsynlegir væru. Hins vegar væri mikilvægast af öllu að áætluninni væri framfylgt af fullum þunga. Minnti hún á að þeir sem standa að baki mansali væru skrefi á undan þeim sem berðust gegn því, og að ímyndunarafli hinna fyrrnefndu væru lítil takmörk sett þegar kæmi að því að finna nýjar leiðir til að hneppa fólk í ánauð.

Þórunn J. Hafstein, settur ráðuneytisstjóri dómsmála - og mannréttindaráðuneytis, ræddi mikilvægi aðgerða gegn mansali og  Sigríður Björk Guðjónsóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum og Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri á Suðurnesjum ræddu för yfir landamæri og minntu m.a. á að Ísland væri bæði áfangastaður og land gegnumstreymis þegar mansal væri annars vegar.

Hildur Jónsdóttir, forsætisráðuneytinu, formaður sérfræði- og samhæfingarteymis um mansalsmál, kynnti aðgerðaáætlunina gegn mansali og Margrét Steinarsdóttir frá Alþjóðahúsi ræddi  aðstoð við fórnarlömb mansals.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta