Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2009 Utanríkisráðuneytið

Samtöl og fundir utanríkisráðherra til að halda uppi málstað Íslands

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur átt fjölmörg samtöl og símtöl á síðustu vikum og mánuðum til að vekja athygli á málstað Íslendinga og hagsmunum, við ráðherra eða sendiherra erlendra ríkja, gesti úr stjórnkerfum ríkja eða Evrópusambandsins eða aðra háttsetta gesti.

Ráðherra hefur verið í reglulegu sambandi við fulltrúa Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Jens Henriksson. Í öllum þessum samtölum kemur utanríkisráðherra fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og um samtöl og fundi hefur verið samráð við forsætis- og fjármálaráðherra auk þess sem utanríkismálanefnd Alþingis hefur verið upplýst um helstu atriði eftir því sem nefndin hefur óskað.

Utanríkisráðherra hefur átt formlega fundi með nánast öllum utanríkisráðherrum Evrópu, sumum þeirra nokkrum sinnum og rætt við þá í síma. Þá átti ráðherra fund með   framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, í New York í september þar sem tafir á efnahagsáætluninni voru til umræðu. Hann ræddi ennfremur málefni Icesave í þrígang við Anders Fogh Rasmussen framkvæmdastjóra tlantshafsbandalagsins í heimsókn hans til Íslands í ágúst.

Ráðherra hefur verið í formennsku í samstarfi norrænna utanríkisráðherra allt þetta ár og tekið formlega upp á þeim vettvangi stöðu efnahagsmála á Íslandi, afstöðu Íslands í Icesave-deilunni og áætlunina sem samin var í samvinnu við AGS á öllum fundum norrænu utanríkisráðherranna. Þar hafa farið fram ítarleg samtöl við Jonas Gahr Störe utanríkisráðherra Noregs, Per Stig Möller utanríkisráðherra Danmerkur, Alexander Stubb utanríkisráðherra Finnlands og Carl Bildt utanríkisráðherra Svíþjóðar en hann hefur á síðari helmingi þessa árs veitt ráðherraráði Evrópusambandsins forystu.

Utanríkisráðherra tók þessi sömu mál einnig upp á fundum sem norrænu utanríkisráðherrarnir héldu með starfsbræðrum sínum frá Eystrasaltsríkjunum; Urmas Paet utanríkisráðherra Eistlands, Maris Riekstins utanríkisráðherra Lettlands og Vygaudas Usackas, utanríkisráðherra Litháen, á Íslandi í ágúst og í New York í september.

Þá hefur ráðherra á þessum vettvangi og í tvíhliða samtölum við norrænu utanríkisráðherrana, bæði á formlegum fundum og í símtölum rætt stöðu norrænu lánanna, sem eru þáttur í efnahagsáætlun Íslands og AGS og lýst alvarlegum áhyggjum Íslendinga af töfum á því að þau fengjust afgreidd.

Utanríkisráðherra hefur frá því í mars átt þrjá formlega fundi með utanríkisráðherra Bretlands, David Miliband og tvo með Maxime Verhagen utanríkisráðherra Hollands, en auk þess átt samtöl við þá á stærri fundum og í síma. Á þessum fundum hefur ráðherra lýst afdráttarlaust afstöðu Íslendinga til Icesave deilunnar, nauðsyn þess að Hollendingar og Bretar sýndu hinni fordæmislausu stöðu Íslands eftir efnahagshrun skilning, mótmælt beitingu hryðjuverkalaga og gert grein fyrir nauðsyn þess að ekki yrðu tafir á efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins af völdum Breta og Hollendinga.

Í ferð utanríkisráðherra á reglubundinn fund EES ráðsins í Brussel í maí átti hann 20-30 mínútna langa tvíhliða fundi með utanríkisráðherra Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Austurríkis, Michael Spindelegger, utanríkisráðherra Ungverjalands, Peter Balazs, utanríkisráðherra Tékklands Jan Kohut (sem fór með formennsku í ráðherraráði ESB á þeim tíma), utanríkisráðherra Svíþjóðar, Carl Bildt, utanríkisráðherra Danmerkur, Per Stig Möller, utanríkisráðherra Finnlands, Alexander Stubb, utanríkisráðherra Portúgal, Louis Amado, utanríkisráðherra Bretlands, David Miliband, utanríkisráðherra Slóveníu, Samuel Zbogar, utanríkisráðherra Slóvakíu, Miroslav Lajcak, utanríkisráðherra Hollands, Maxime Verhagen, utanríkisráðherra Belgíu, Karel De Gucht, utanríkisráðherra Liechtenstein, Aureliu Frick, utanríkisráðherra Noregs, Jonas Gahr Störe, Evrópuráðherra Írlands, Dick Roche og varautanríkisráðherra Grikklands, Yannis Valinakis

Þá átti utanríkisráðherra í sömu ferð fund með Olli Rehn stækkunarstjóra Evrópusambandsins og embættismönnum ESB. Á öllum fundum var rætt um aðildarumsókn Íslands að ESB en sérstaklega var fjallað um afleiðingar efnahagshrunsins og Icesave deiluna á fundum með norrænu ráðherrunum, ráðherrum Þýskalands og Austurríkis, Hollands og Bretlands.

Í ferð ráðherra til Möltu í júní átti hann formlega fundi með forsætis- og utanríkisráðherra Möltu auk sérfræðinga í stjórnkerfi landsins þar sem fyrst og fremst var fjallað um  reynslu smáríkisins af samningaviðræðum við Evrópusambandið og árangur af þátttöku Möltu í ESB.

Í sömu ferð sótti ráðherra ársfund Eystrasaltsráðsins í Helsingör í Danmörku og átti þar tvíhliða fundi með utanríkisráðherra Eistlands, Urmas Paet, utanríkisráðherra Lettlands, Maris Riekstins og utanríkisráðherra Litháen, Vygaudas Usackas, varautanríkisráðherra Póllands, Grazynu Mariu Bernatowicz, starfandi utanríkisráðherra Úkraínu, Volodomyr Khandohiy, og Evrópumálaráðherra Þýskalands,Gunther Gloser.

Fjallað var um tvíhliða samskipti, stöðu efnahagsmála, efnahagsáætlun Íslands og aðildarumsókn Íslands en sérstaklega var rætt við þýska ráðherrann um stöðuna í deilu Íslendinga við Breta og Hollendinga um Icesave.

Á ráðherrafundi EFTA ríkjanna í Hamar í Noregi í júlí gerði utanríkisráðherra grein fyrir stöðunni í efnahagsáætlun Íslands og Icesave deilunni.

Eftir að Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um að hefja viðræður við  Evrópusambandið í júlí sendi ráðherra öllum utanríkisráðherrum Evrópusambandsríkjanna bréf og átti símtöl við utanríkisráðherra Frakklands, Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Rúmeníu, Christian Dionescu, utanríkisráðherra Ítalíu, Franco Frattini, utanríkisráðherra Svíþjóðar, Carl Bildt, utanríkisráðherra Litháen, Vygaudas Usackas og Evrópuráðherra Þýskalands, Gunther Gloser.

Utanríkisráðherrar Spánar, Miguel Angel Moratinos, og Litháen, Vygaudas Usackas, og Evrópumálaráðherra Frakklands, Pierre Lellouche, hafa komið til Íslands í sérstakar heimsóknir þar sem meginerindið hefur verið að fjalla um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu en utanríkisráðherra hefur í samtölum við þessa ráðherra gert grein fyrir stöðu efnahagsmála eftir hrun, efnahagsáætlunina sem fylgt er og málstað Íslendinga í deilunni við Breta og Hollendinga.  

Á meðan ráðherra sótti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í september átti hann formlega 20-30 mínútna langa fundi með forseta Tékklands, Vaclav Klaus, forseta Póllands, Lech Kaczynski og forseta Finnlands, Törju Halonen, svo og utanríkisráðherra Austurríkis, Michael Spindelegger, utanríkisráðherra Kýpur, Markos Kyprianou, utanríkisráðherra Rúmeníu, Christian Dianconescu, utanríkisráðherra Slóveníu, Samuel Zbogar, utanríkisráðherra Slóvakíu, Miroslav Lajcak, utanríkisráðherra Ungverjalands, Peter Balazs, utanríkisráðherra Möltu, Tonio Borg, utanríkisráðherra Ástralíu, Stephen Smith, utanríkisráðherra Lúxemborg, Jean Asselborn, varautanríkisráðherra Þýskalands. Reinhard Silberberg, og varautanríkisráðherra Búlgaríu, Milen Lyutskanov, en einnig eins og áður kom fram sérstaka fundi með Dominique Strauss-Kahn framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og sameiginlegan fund með utanríkisráðherrum Bretlands og Hollands. Einnig átti ráðherra ýmis styttri samtöl við ráðamenn annarra landa á meðan á allsherjarþinginu stóð. Í New York var haldinn sérstakur fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna þar sem ráðherra tók sérstaklega upp þann drátt sem orðinn var í afgreiðslu lána frá norrænum vinaþjóðum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta