Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2009 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmála- og mannréttindaráðherra mælti fyrir fjórum frumvörpum á Alþingi

Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra mælti í gær fyrir fjórum frumvörpum á Alþingi: breytingu á lögum um kosningar - annars vegar til Alþingis og hins vegar til sveitarstjórna, breytingu á lögum um dómstóla, og breytingu á lögum um meðferð sakamála.

Dómstólafrumvarp

Með frumvarpinu er lagt til að dómstólarnir átta verði sameinaðir í einn dómstól, héraðsdómstól. Lagt er til að dómstólaráð ákveði hvar héraðsdómur hafi fastar starfsstöðvar og hvernig landinu verði skipt í þinghár. Dómstjóri, sem verður einn, skal fara með faglega yfirstjórn héraðsdóms og skipta verkum milli dómara og annarra starfsmanna héraðsdóms. Þá er gert ráð fyrir að löglærðir aðstoðarmenn dómara fái heimildir til dómstarfa í sama mæli og dómarafulltrúar höfðu áður.

Dómstólaráð gerði í byrjun árs 2009 tillögur til ráðherra í tengslum við ráðagerðir um sparnað í rekstri héraðsdómstóla, þar sem því var meðal annars hreyft að draga mætti úr kostnaði af þeim með því að sameina þá, en halda þó starfsemi þeirra áfram eftir þörfum utan höfuðborgarsvæðisins á sérstökum starfsstöðvum. Með þessu mundi kostnaður minnka vegna yfirstjórnar og húsnæðis auk tækjabúnaðar og mannahalds, þótt dómurum yrði ekki fækkað. Um leið mætti stuðla að því að starfskraftar dómara nýttust betur með því að þeir yrðu ekki hver um sig bundnir við tiltekinn dómstól, heldur gætu þeir starfað við héraðsdóm hvar sem er á landinu og yrði þannig betur fært að mæta álagi á einstökum stöðum þegar þörf krefði. Á þennan hátt yrði einnig búið í haginn til að mæta auknu álagi á héraðsdómstóla, sem reiknað hefur verið með vegna aðstæðna í þjóðfélaginu, en vænta mætti að síður yrði þá þörf á að fjölga héraðsdómurum í bráð af þeim sökum. Var réttarfarsnefnd falið að semja frumvarp á grundvelli þessara tillagna dómstólaráðs.

Stofnun embættis héraðssaksóknara frestað

Frumvarpið gerir ráð fyrir að stofnun sérstaks embættis héraðssaksóknara verði frestað áfram og komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2012.

Með lögum um meðferð sakamála sem tóku gildi 1. janúar sl. var gert ráð fyrir að þá tæki til starfa nýtt embætti héraðssaksóknara. Með lögum nr. 156/2008 var ákveðið að fresta því fram til 1. janúar 2010 að setja embættið á stofn. Var sú breyting liður í sparnaðaraðgerðum dómsmálaráðuneytisins vegna fjárlagaársins 2009. Vegna enn frekari sparnaðaraðgerða ráðuneytisins vegna komandi fjárlagaárs verður enn á ný að fresta því að embætti héraðssaksóknara verði sett á stofn.

Nýtt kerfi persónukjörs til Alþingis annars vegar og hins vegar til sveitarstjórna

Með frumvörpum þessum er lagt til að tekið verði upp nýtt kerfi persónukjörs í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum hér á landi. Frumvörpin voru lögð fram á nýliðnu sumarþingi, og voru nú flutt á ný efnislega óbreytt en með örfáum tæknilegum lagfæringum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta