Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2009 Dómsmálaráðuneytið

Hagkvæmni sameiningar Þjóðskrár og Fasteignaskrár könnuð

Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra hefur falið samráðshópi að kanna til hlítar hagkvæmni þess að sameina starfsemi Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands. Áður hafði samráðshópurinn, sem skipaður er tveimur fulltrúum ráðuneytisins ásamt ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra Þjóðskrár og forstjóra Fasteignaskrár, lagt til að tölvudeildir Þjóðskrár og Fasteignaskrár yrðu sameinaðar og hefur þegar verið ákveðið að stíga það skref frá og með næstu áramótum.

Samráðshópurinn fól fjórum starfsmönnum frá Þjóðskrá og Fasteignaskrá að skoða hagkvæmni þess að sameina tölvudeildirnar. Í niðurstöðum þeirra segir að auk hagkvæmni þess að sameina tölvudeildirnar bendi fjölmörg atriði eindregið til þess að mikið hagræði yrði af fullri sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár. Því sé mikilvægt að huga fljótlega að næstu skrefum eftir sameiningu tölvudeildanna.

Ráðuneytið hefur nú þegar falið Framkvæmdasýslunni að kanna möguleika og hagkvæmni þess að starfsemi Þjóðskrár flytjist alfarið úr Borgartúni 24 í Borgartún 21, þar sem Fasteignaskráin er þegar til húsa.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta