Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra tók í október sl. á móti hópi hressra stúlkna
Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra tók í október sl. á móti hópi hressra stúlkna og spjallaði við þær í um klukkustund. Tilefnið var að stúlkurnar voru þátttakendur í sjálfsstyrkingarnámskeiðinu „Að brjótast í gegnum takmarkanir“ sem skipulagt var fyrir hreyfihamlaðar stúlkur á aldrinum 10-15 ára. Markmiðið með námskeiðinu var að auka sjálfstraust stúlknanna og trú þeirra á eigin færni. Liður í því var að fá að ræða við ráðherra um stöðu og framtíðarhorfur ungra hreyfihamlaðra kvenna innan menntakerfisins og mikilvægi þess að opna augu þeirra fyrir þeim möguleikum og tækifærum sem samfélagið býður þeim upp á. Á námskeiðinu var þeim kynnt réttindi þeirra og skyldur, rætt um fordóma og staðalmyndir. Námskeiðið var fjármagnað af Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar.
Ein umsjónarkona verkefnisins, Embla Ágústsdóttir 19 ára framhaldsskólamær, hafði orð fyrir hópnum og lýsti ánægju sinni með að fá að hitta ráðherra. Sköpuðust fróðlegar og skemmtilegar umræður en einnig höfðu stúlkurnar undirbúið spurningar fyrir fundinn sem ráðherra svaraði af miklum móð, enda margar erfiðar og krefjandi spurningar. Má þar nefna spurninguna um það hvort hún hefði alltaf haft það að stefnu sinni að verða ráðherra, hvort hún yrði einhvern tíma vandræðaleg í vinnunni, hvort allir gætu orðið ráðherrar og hvort alltaf væri gaman í vinnunni.
Þær Áslaug Ýr, Birna Lind, Bjarndís Sara, Björk, Ingeborg, Júlía, Júlía Rakel, Lilja Björt, Marta María, Rán, Saga Rut, Snædís Rán og Snædís virtust njóta stundarinnar og samverunnar og ekki var annað að sjá en að hópurinn færi fullur sjálfstrausts út í októberskímuna að afloknum fundi.