Norrænn loftslagsdagur 11. nóvember
Norræni loftslagsdagurinn verður haldinn hátíðlegur 11. nóvember, en hann er hluti af undirbúningi fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP15), sem haldin verður í Kaupmannahöfn í desember. Af þessu tilefni mun Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, heimsækja Langholtsskóla í Reykjavík og Flensborgarskóla í Hafnarfirði.
Norræni loftslagsdagurinn er sameiginlegt verkefni allra norrænu menntamálaráðherranna og felst meðal annars í því að efla kennslu um loftslagsmál á Norðurlöndum og jafnframt að auka og efla samstarf kennara og nemenda á Norðurlöndum. Margt hefur verið gert til að vekja áhuga ungs fólks á loftslagsmálum og ýmis verkefni hafa verið í gangi í tilefni dagsins, s.s. stuttmyndasamkeppnin „REClimate", auk þess sem skólar á öllum skólastigum hafa getað skráð verkefni tengd loftslagsmálum á sérstakt norrænt loftslagskort. Fjöldi stofnana og samtaka á Norðurlöndum tekur þátt í Norræna loftslagsdeginum, auk Eystrasaltsríkjanna og Rússlands þar sem Norræna ráðherranefndin verður með kynningar.
Vakin er sérstök athygli á því að Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mun formlega opna loftslagsdaginn hérlendis með ávarpi í hátíðarsal Langholtsskóla kl. 9:40, miðvikudaginn 11. nóvember. Við það tækifæri verða ennfremur kynnt loftslagsverkefni sem börn á Leikskólanum Bakka í Grafarvogi hafa gert í tilefni dagsins og sýndar stuttmyndir um umhverfis- og loftslagsmál sem nemendur í Borgarholtsskóla senda inn í stuttmyndasamkeppnina „REClimate". Nemendur í 9. bekk Langholtsskóla munu hefja þátttöku í norrænu símaverkefni, sem er trúlega stærsta kennsluátak og farsímaverkefni heims. Verkefnið felst í að leysa þrautir og svara spurningum tengdum loftslagsmálum í gegnum sms-skilaboð, og mun ráðherra við þetta tækifæri senda fyrstu sms-skilaboðin fyrir þeirra hönd.
Síðar sama dag, kl. 12.40, mun ráðherra opna ljósmyndasýningu í Flensborgarskóla sem ber yfirskriftina „Áhrif loftslagsbreytinga á náttúru Íslands". Þessi sýning er samstarfsverkefni umhverfisráðuneytisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands og er sett upp í tilefni norræna loftslagsdagsins.
Frekari upplýsingar um Norræna loftslagsdaginn má finna á vefsíðunni: www.klimanorden.org