Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2009 Matvælaráðuneytið

Nr. 38/2009 - Nýtt frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða.

Í dag, 10. nóvember 2009, leggur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason fram á Alþingi nýtt frumvarp. Frumvarpið er samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, en með því eru lagðar til breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Eru þær helstar eftirfarandi: 

  1. Heimilað verði að stunda veiðar í atvinnuskyni á sama tímabili og frístundaveiðar eru stundaðar.
  2. Dregið verði úr heimild til að flytja aflamark milli fiskveiðiára úr 33% í 15%, en sérstaklega kveðið á um í bráðabirgðaákvæði að á þessu fiskveiðistjórnunarári verði heimildin 10%.
  3. Línuívilnun aukin.
  4. Heimild til að kveða á um vinnsluskyldu á uppsjávarfiski.
  5. Svokölluð veiðiskylda aukin en í því sambandi tekið tillit til veiða utan lögsögu úr stofnum sem ekki teljast til deilistofna.
  6. Heimild til flutnings aflamarks frá skipi takmörkuð.
  7. Bráðabirgðaákvæði er lýtur að veiðistjórnun á skötusel og gjaldtöku fyrir úthlutun aflamarks í þeirri tegund.
  8. Skipting leyfilegs heildarafla í karfa.

Með frumvarpinu eru heimildir útgerða sem stunda frístundaveiðar, og eiga  aflaheimildir, rýmkaðar þannig að þeim skipum sem einnig hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni verði eftirleiðis heimilt innan sama fiskveiðiárs að stunda frístundaveiðar og veiðar í atvinnuskyni á sama tíma. Í núgildandi lögum er þetta  óheimilt og hefur það skapað vandræði fyrir þá sem leggja stund á hvorutveggja.

Frá upphafi kvótakerfisins hefur verið að finna ákvæði í lögum sem heimilar að ákveðið hlutfall aflamarks sé flutt á milli fiskveiðiára. Á síðasta ári var heimild þessi hækkuð úr 20% í 33% af aflamarki hverrar botnfisktegundar, úthafsrækju, humars og síldar. Nú er lagt til að þessi heimild verði lækkuð í 15% og svigrúm og sveigjanleiki minnkar sem því nemur en ráðherra hafi þó heimild til hækkunar fyrir einstakar fisktegundir séu fyrir því haldbær rök. Gengið er enn lengra á þessu fiskveiðistjórnunarári þar sem lagt er til að flutningsheimildin verði 10%. Rökin fyrir þessu eru einfaldlega að sem mestur afli berist að landi sem ekki veitir af í því efnahagsumhverfi sem við búum við um þessar mundir.  

Lagt er til að svokölluð veiðiskylda verði aukin þannig að miðað verði við að 50% af aflamarki skips sé nýtt með veiðum þess á hverju fiskveiðiári en ekki að það sé gert annað hvert ár eins og kveðið er á um í núgildandi lögum. Meginmarkmiðið með úthlutun aflaheimilda er að þeim sé ráðstafað til veiða innan fiskveiðiársins. Hér er lagt til að svigrúm til annarrar nýtingar verði takmarkað sem þessu nemur.

Samkvæmt núgildandi lögum er óheimilt að flytja frá skipi meira en sem nemur 50% úthlutaðs aflamarks í þorskígildum talið nema þegar breyting hefur orðið á skipakosti útgerðar eða skip hefur horfið úr rekstri um lengri tíma vegna alvarlegra bilana eða sjótjóns. Til að stuðla að því að aflaheimildir séu nýttar til veiða er lagt til að einungis verði heimilt að flytja af fiskiskipi 50% þess aflamarks sem skipi var úthlutað, í þorskígildum talið. Hér er að sama skapi verið að herða reglur í þá veru að þeir sem hafi aflaheimildir ráðstafi þeim til veiða.

Enn fremur er lagt til að framvegis verði að koma til varanleg breyting á skipakosti til að breyting á skipakosti leiði til aukinnar flutningsheimildar aflamarks. Með varanlegri breytingu á skipakosti er átt við þau tilvik þegar útgerð selur skip sitt, útgerð kaupir til sín skip og gerir út og þegar skip er tekið af skipaskrá. Ákvæði þetta er sett fram til þess að styrkja heimildir framkvæmdavaldsins til að tálma aðferð sem þekkt er og oft er kölluð “kínverska leiðin”.

Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á ákvæði laganna sem snýr að línuívilnun, þ.e. þeirri reglu að afli sem veiddur er á línu reiknast ekki, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, að fullu til aflamarks hlutaðeigandi báts. Samkvæmt núgildandi lögum nær línuívilnun einungis til afla sem veiðist á línu sem beitt hefur verið í landi en í frumvarpi þessu er lagt til að sé lína stokkuð upp í landi taki ívilnunarregla einnig til þess afla sem á hana veiðist. Þá er hlutfall hefðbundnar línuívilnunar aukið úr 16% í 20% og verður 15% fyrir þá sem stokka línu í landi og ætti þá að vera tryggt að þær aflaheimildir er tilheyra línuívilnun sem m.a. eru ákveðnar í lögum verði veiddar að fullu en það hefur ekki náðst undanfarin fiskveiðiár. Ekki nýttust í línuívilnun 1.518 tonn af þorski, 28 tonn af ýsu og 78 tonn af steinbít þrátt fyrir heimildir. Jafnframt er fallið frá þeirri skyldu vegna öryggissjónarmiða að bátur skuli landa í sömu höfn og haldið var til veiða frá.

Þá er gert ráð fyrir að sett verði í lög ákvæði sem heimilar ráðherra að skylda útgerðir skipa er stunda veiðar á uppsjávarfiski til að vinna hluta aflans. Þekkt er að veiðar á ýmsum uppsjávarfiski til bræðslu hafa verið umdeildar útfrá því sjónarmiði að um sé að ræða fisk sem fyllilega sé hæfur til manneldis. Ekki síst hefur þessi gagnrýni komið erlendis frá. Verðhlutföll afurða stjórna því að stærstum hluta hvernig útgerðir haga sinni vinnslu. Það er mat Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að nauðsynlegt sé fyrir stjórnvöld af ýmsum ástæðum ekki síst siðrænum og þáttum er varða umgengni við auðlindina að stjórnvaöld hafi þetta tæki til að hlutast til um þegar að nauðsyn krefur.

Útbreiðsla skötusels hefur breyst verulega frá því að aflaheimildum var úthlutað upphaflega á grundvelli veiðireynslu undan Suðurlandi en skötuselur hefur í stórauknum mæli verið að veiðast vestur og norður af landinu. Sú veiði hefur að stórum hluta verið stunduð af skipum sem leigja til sín kvóta af skipum frá Suðurlandinu. Við ákvörðun heildar aflamarks í sumar fyrir fiskveiðiárið 2009/2010 var úthlutað heildaraflamarki upp að 2.500 tonnum sem var í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason tiltók þá að hann myndi úthluta viðbótaraflamarki en það yrði gert með öðrum hætti. Rökin fyrir viðbótinni er hin gríðarlega aukna útbreiðsla, ekki liggja fyrir
áhrif þessa fiskjar á lífríkið og veiðin hefur aukist. Þessu til staðfestingar er hér bent á að í dag skv. skýrslum Fiskistofu er nú þegar búið að veiða 53% af heildaraflamarki ársins og það þrátt fyrir að aðeins séu liðnir rúmir tveir mánuðir af þessu fiskveiðiári.  Með vísan til þessa er hér lagt til að sett verði ákvæði til bráðabirgða sem heimilar ráðherra á fiskveiðiárunum 2009/2010 og 2010/2011 sérstaka ráðstöfun á allt að  2.000 lestum af skötusel án þess að þeim verði úthlutað á grundvelli aflahlutdeilda í tegundinni. Gert er ráð fyrir að útgerðum skipa sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni verði heimilað að sækja um að fá í hvert sinn að hámrki 5 tonn af þeim aflaheimildum gegn greiðslu gjalds. Gert er ráð fyrir að tekjur af aflaheimildum renni í ríkissjóð og skuli ráðstafað á þann veg að 40% hluti þeirra renni í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs og 60% hluti renni í byggðaáætlun með það að markmiði að stuðla að atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggðum undir forsjá iðnaðarráðherra. Tiltekið er að um brýna ráðstöfun er að ræða sem er í samræmi við stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar um brýnar aðgerðir vegna stjórnunar fiskveiða. Aðgerðin er tímabundin og einstök að því leyti að hún tekur á nær fordæmislausum breytingum á útbreiðslu stofns sem eru tilkomnar að líkindum vegna hlýnunar loftslags og hækkandi hita sjávar.  

Þá eru bráðabirgða ákvæði sem varða skiptingu úthlutunar karfaaflaheimilda í gullkarfa og djúpkarfa og ákvæði sem kveður á um að úthlutað aflamark í úthafsrækju leiði ekki til þess að fiskiskip missi aflahlutdeild í úthafsrækju eða öðrum tegundum, en samhljóða ákvæði hefur verið í gildi síðast liðin fjögur fiskveiðiár, ásamt ákvæði sem takmarkar fyrrgreinda heimild til flutnings aflamarks á yfirstandandi fiskveiðiári við 10%. Vakin er athygli á því að ekki er endunýjuð heimild til þess að eingöngu veiðar á úthafsræju skuli bera veiðigjald. Það ásamt takmörkun á flutningi á milli skipa ætti að stuðla að auknum veiðum á þessari tegund.

Furmvarp það sem hér er gert að umtalsefni verður lagt fyrir Alþingi í dag í upphafi þingfundar kl. 1400.

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta