Íslensk málstefna
Íslendingar eignuðust opinbera málstefnu í fyrsta sinn hinn 12. mars 2009 en þá samþykkti Alþingi tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu sem opinbera stefnu í málefnum íslenskrar tungu.
Samþykkt Alþingis markaði þannig tímamót í sögu tungunnar.
Í íslenskri málstefnu er megináhersla lögð á að treysta stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu. Aðalmarkmið stefnunnar er að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Íslenska er sameign okkar sem tölum hana og því er framtíð hennar í okkar höndum.
Í stefnunni segir m.a.: "Nýir tímar færa okkur ný úrlausnarefni og málstefnuna verðum við þess vegna að endurskoða reglulega. Líklega verðum við ekki alltaf sammála um aðferðir og áherslur en mestu varðar að við séum sammála um að vinna öll að því aðalmarkmiði málstefnunnar að tryggja að íslenska verði áfram notuð um allt sem við hugsum og tökum okkur fyrir hendur alls staðar í íslensku samfélagi. Þannig tryggjum við best framtíð íslenskrar tungu".