Mælt fyrir frumvarpi um stjórnlagaþing
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi til laga um stjórnlagaþing sem lagt er fram í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Frumvarpið, sem var unnið í samráði við fulltrúa allra þingflokka, var einnig lagt fram á 137. löggjafarþingi án þess að mælt væri fyrir því og er nú lagt fram að nýju án breytinga. Það felur í sér það nýmæli að sett verði á fót hér á landi stjórnlagaþing sem falið verði að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins.
Verkefni stjórnlagaþings
Samkvæmt frumvarpinu er ráðgert að stjórnlagaþing taki sérstaklega til skoðunar efnisatriði sem staðið hafa nær óbreytt allt frá setningu stjórnarskrárinnar 1874 og varða grunnhugtök íslensks stjórnskipulags, þingræðisregluna, þrískiptingu ríkisvaldsins, skipan löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins og tengsl þeirra innbyrðis, hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins, sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvaldsins, ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan og þátttöku almennings í lýðræði. Þingið getur þó jafnframt tekið til endurskoðunar hvaðeina annað sem það kýs eða lagt til að bætt verði við stjórnarskrána nýjum ákvæðum eða köflum.
Starfstími þingsins
Ráðgert er að þingið komi saman til fyrsta fundar þann 17. júní 2010 og að það ljúki störfum 17. febrúar 2011, en Alþingi getur framlengt starfstímann um allt að þrjá mánuði. Tillögum þingsins er ætlað að vera ráðgefandi fyrir Alþingi og skal frumvarp sem stjórnlagaþing samþykkir sent Alþingi til meðferðar. Til álita kemur að fresta stjórnlagaþinginu og þar með kosningu til þess fram til ársins 2011 þannig að störf stjórnlagaþingsins og umfjöllun Alþingis í kjölfarið á frumvarpi til nýrra stjórnarskipunarlaga fari betur saman við kosningar til Alþingis sem ætla má að verði vorið 2013.
Þjóðkjörnir fulltrúar
Frumvarpið gerir ráð fyrir því að 25-31 fulltrúi verði kosinn persónukosningu á stjórnlagaþingið samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum vorið 2010. Í frumvarpinu eru gerðar ítarlegar tillögur um framkvæmd persónukjörsins sem miða að því að endurspegla afstöðu kjósenda til frambjóðenda eins vel og unnt er um leið og stuðlað verður að jöfnu hlutfalli karla og kvenna eins og kostur er í hópi þingfulltrúanna.
Starfstími og störf nefnda
Lagt er til að þingið komi saman í þrígang; fyrst til að kjósa í nefndir og skipuleggja störf þeirra og samþykkja verkáætlun, annað skiptið verði nýtt til að ræða framkomnar tillögur nefnda og það þriðja til að taka til meðferðar og samþykkja frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Forseti stjórnlagaþings sem kjörinn er á fyrsta fundi þess er æðsti embættismaður þingsins og leiðir hann jafnframt forsætisnefnd. Þá ber hann ábyrgð á rekstri stjórnlagaþings og fer með æðsta vald í stjórnsýslu þess.
Kynning á starfsemi og þátttaka almennings
Í ljósi þess mikilvæga hlutverks sem stjórnlagaþingið gegnir við endurskoðun stjórnlaga ríkisins er ráðgert í frumvarpinu að starfsemi þess verði kynnt með víðtækum hætti í samfélaginu, bæði fyrir og eftir að kosið verður til þess. Jafnframt er ráð fyrir því gert að leitað verði eftir viðhorfum almennings til þeirra verkefna sem þingið tekur sér fyrir hendur.
Undirbúningur fyrir setningu þingsins
Til þess að þingið geti hafið störf jafnskjótt og það kemur saman er afar mikilvægt að störf þess verði vel undirbúin. Því mælir frumvarpið fyrir um að forsætisráðherra skipi við gildistöku laganna sérstaka undirbúningsnefnd í þessu skyni.
Kostnaður
Fjármálaráðuneytið áætlar að heildarkostnaður við 8 mánaða stjórnlagaþing verði um 312 milljónir króna og heildarkostnaður við 11 mánaða þinghald verði 392 m.kr. Til viðbótar kostnaði við þinghaldið sjálft, undirbúning þess og rekstur má ætla að kostnaður landskjörstjórnar við að útbúa og dreifa kynningarefni um frambjóðendur og kosningarnar ásamt kostnaði ríkissjóðs við kosningu fulltrúa á stjórnlagaþingi samhliða sveitarstjórnarkosningum geti orðið um 50 m.kr.
Í framsöguræðu sinni sagði forsætisráðherra meðal annars um kjörgengi fulltrúa á stjórnlagaþingið:
„Ráðgert er að sömu skilyrði gildi um það og varðandi kjörgengi til Alþingis, með þeirri undantekningu þó að forseti Íslands, alþingismenn, varamenn þeirra og ráðherrar séu ekki kjörgengir. Með þessu er stefnt að því tryggja að þingið vinni sjálfstætt að tillögum sínum gagnvart Alþingi og öðrum handhöfum ríkisvalds og án beinnar aðkomu fulltrúa þessara handhafa. Ástæða þess að efnt er til stjórnlagaþingsins, sem starfar þannig við hlið Alþingis, er einmitt að skapa nýjan vettvang fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar í ákveðinni fjarlægð frá stjórnmálaflokkum og fulltrúum þeirra á Alþingi. [...] Með stjórnlagaþingi er undirstrikað að í lýðræðisþjóðfélagi spretti allt vald frá þjóðinni og því skuli stjórnlög sett af fulltrúum fólksins. Þessum þjóðkjörnu fulltrúum er falið að setja þær grundvallarreglur sem gilda um æðstu stjórn og skipulag ríkisins, verkefni handhafa ríkisvaldsins, verkaskiptingu þeirra og valdmörk.“
Frumvarpið má sjá á vef Alþingis.
Reykjavík 13. nóvember 2009