Framtíð sveitarstjórnarsamstarfs rædd hjá Evrópuráðinu
Meðal umræðuefna er skýrsla finnska sveitarstjórnar- og byggðamálaráðherrans, Mari Kiviniemi, um framtíð sveitarstjórnarsamstarfsins á vettvangi Evrópuráðsins. Þá er farið yfir áhrif fjármálakreppunnar á sveitarfélög og sjálfsstjórnarsvæði í ríkjum Evrópuráðsins en ljóst er að áhrifa kreppunnar á sveitarstjórnarstigið gætir í öllum aðildarríkjum ráðsins. Ennfremur mun fundurinn ákveða verkefni ráðsins varðandi sveitarstjórnarstigið og hið staðbundna lýðræði fram til ársins 2011 er næsti ráðherrafundur verður haldinn.
Á fundum verður opnað fyrir undirritun á viðbótarskjali við Evrópusáttmálann um sjálfsstjórn sveitarfélaga, sem Ísland fullgilti árið 1990, en með því er staðfestur skilningur aðildarríkja á mikilvægi virkrar þátttöku íbúa á sveitarstjórnarstigi og afskiptum þeirra af málefnum viðkomandi sveitarfélaga. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra undirritar sáttmálann fyrir Íslands hönd en stefnt er að fullgildingu hans þegar endurskoðun sveitarstjórnarlaga lýkur á næsta ári.
Nánar um fundinn má sjá á heimasíðu Evrópuráðsins: