Oslóar-jólatréð fellt við hátíðlega athöfn í Osló
Oslóar-jólatréð var fellt við hátíðlega athöfn í Grefsenkollen skóginum fyrir utan Osló í dag, 16. nóvember, en tréð er árleg gjöf Oslóarborgar til Reykjavíkurborgar. Viðstaddir voru meðal annarra borgarstjóri Oslóar, Fabian Stang, sendiherra Noregs á Íslandi, Margit Tveiten, sendiherra Íslands í Noregi, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og íslenski presturinn í Noregi sr. Arna Grétarsdóttir.
Þetta er í fyrsta sinn sem tréð er fellt við slíka athöfn og áttu borgarstjóri Oslóar, umhverfissvið Oslóarborgar og sendiráð Íslands í Osló frumkvæði að athöfninni. Til hennar komu Íslendingar búsettir í Osló, fullorðnir og börn, þar á meðal hópur leikskólabarna. Boðið var upp á skógarpylsur og kaffi við snarkandi varðeld, sungnir voru jólasöngvar og ræður haldnar. Sendiherrarnir munduðu síðan sögina og fóru langleiðina með að fella tréð. Var trénu síðan beðið allra heilla á ferðalaginu til Íslands en það leggur af stað sjóleiðina til Reykjavíkur næstkomandi fimmtudag.