Skipun í stöðu skrifstofustjóra lögfræðisviðs fjármálaráðuneytisins
Fréttatilkynning nr. 74/2009
Fjármálaráðherra hefur skipað Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, lögfræðing, í stöðu skrifstofustjóra lögfræðisviðs fjármálaráðuneytisins.
Með auglýsingu dags. 25. september s.l. var embætti skrifstofustjóra lögfræðisviðs auglýst laust til umsóknar og rann umsóknarfrestur út 11. október s.l. Alls bárust ellefu umsóknir um stöðuna.
Hafdís Helga lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1992 og meistaraprófi í Evrópurétti frá Háskólanum í Lundi árið 2005. Hún hefur jafnframt sótt fjölda námskeiða um stjórnun og stjórnendaþjálfun undanfarin ár. Hafdís Helga starfaði síðast sem aðallögfræðingur Samkeppniseftirlitsins. Áður hafði hún m.a. starfað sem aðallögfræðingur Alþingis, forstöðumaður og aðstoðarforstöðumaður nefndasviðs þingsins og nefndaritari nokkurra fastanefnda. Þá hefur Hafdís Helga kennt við Háskóla Íslands frá árinu 1995, þar af sem aðjúnkt frá 2005.
Skipunartími Hafdísar Helgu er til fimm ára frá og með 20. nóvember 2009 að telja.
Fjármálaráðuneytinu, 16. nóvember 2009