Nýtt skattkerfi með jafnari dreifingu
Fréttatilkynning nr. 75/2009
- Tekjuskattur lækkar á einstaklinga með undir 270 þúsund krónur í mánaðartekjur og hjón með 540 þúsund krónur í mánaðartekjur.
- Ríflega fórðungs minni hækkun skatta en lagt var til í fjárlagafrumvarpi.
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkannna um leiðir til aukinnar tekjuöflunar ríkissjóðs liggur nú fyrir.
Niðurstaðan byggir á tveimur þáttum. Annars vegar að tryggja að aukin skattheimta leggist frekar á þá sem betur eru í stakk búnir til að bera auknar byrðar en verði þó ekki til þess að draga úr möguleikum fólks til að vinna sig út úr þeim erfiðleikum sem framundan eru. Hins vegar að auka tekjur ríkissjóðs nægjanlega mikið svo hægt sé að vinna á þeim mikla halla sem nú er á rekstri ríkissjóðs.
Undanfarnar vikur hefur verið unnið að endurskoðun tekjuáætlunar fjárlagafrumvarps ársins 2010 og útfærslum á þeim tekjumarkmiðum sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu. Þar hefur verið horft til (a) tekjuskatta einstaklinga, (b) breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum, (c) nýrra umhverfis- og auðlindaskatta (d) og ýmissa annarra gjalda, þ.m.t. tryggingargjalds. Í ljós hefur komið að ríflega fjóðungs minni þörf er á hækkun skatta en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.
Tekju- og fjármagnstekjuskattar einstaklinga
Á undanförnum tveimur áratugum hefur tekjuskattur sem hlutfall af heildartekjum einstaklinga á Íslandi tvöfaldast sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þá hafa tekjuskattar sem hlutfall af heildarlaunum aukist úr 17% árið 1993 í 22% árið 2007. Á sama tíma hefur skattbyrði aukist mest í tekjulægstu hópana en dregið úr henni á tekjuhæstu hópana. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að leiðrétta þetta og byggja upp skattkerfi sem tryggir réttlátari dreifingu byrðanna. Þegar verður ráðist í heildarendurskoðun á skattkerfinu og tengslum þess við vaxta- og barnabætur sem miðar að enn frekari jöfnun en náðst hefur með fyrirliggjandi tillögum.
Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að tekjuskattar á einstaklinga skili ríkissjóði tekjum að fjárhæð 143,5 ma.kr, samanborði við áætlaðar tekjur í ár að fjárhæð 106,7 ma.kr. Eftir nánari athuganir og útreikninga er ekki talið raunhæft að stefna að svo mikilli tekjuaukningu. Lagt er til að stefna eigi að upptöku 3ja þrepa skatts á almennar launatekjur og skattþrepin verði sem hér segir:
1. þrep ber 24,1% á tekjur undir 200 þús. á mánuði
2. þrep ber 27,0% á tekjur frá 200 til 650 þús.kr.
3.þrep ber 33,0% á tekjur yfir 650 þús.kr.
Í þeim tilfellum sem þar sem ein fyrirvinna fjölskyldu hefur yfir 650 þúsund krónur í mánaðartekjur er möguleiki á að sækja um að færa hluta tekna í lægra skattþrep.
Skattleysismörk hækka úr um 113 í tæpar 119 þús.kr., m.v. þær álagningarprósentur sem nú eru til skoðunar.
Í þessu felst að einstaklingar sem sem hafa undir 270 krónur í mánaðartekjur og hjón með undir 540 þúsund krónur munu greiða lægri tekjuskatt en þau gera í núverandi skattkerfi.
Fjármagnstekjuskattur hækkar úr 15 í 18%, með 100 þús.kr. frítekjumarki vaxtatekna á ári, en skattstofn leigutekna verður 70% af framtöldum tekjum
Samanlagðar tekjur af almennum tekjuskatti einstaklinga og fjármagnstekjuskatti yrðu miðað við framangreindar forsendur alls um 117 ma.kr.
Óbeinir skattar og vörugjöld
Í fjárlagafrumvarpi ársins 2010 er miðað við að auknar tekjur af óbeinum sköttum og vörugjöldum nemi 10,5 ma.kr. samtals. Þar af er reiknað með 8 ma.kr. í viðbótartekjur af virðisaukaskatti með hækkun hlutfalla, flutningi milli skattþrepa eða breikkun á skattstofni. Einnig, að 10% hækkun á vörugjöldum á áfengi, tóbak, bensín, díselolíu og bifreiðagjaldi skili 2,5 ma.kr., en þar af nemi 10% hækkun á bensíngjald og olíur ca. 1,5 ma.kr.
Breytingartillögur frá áformum frumvarpsins fela í sér að tekinn er upp 3ja þrepa virðisaukaskattur; 7%, 14% og 25%. Í 7% þrepi verði matvörur, mjólkurvörur, húshitun, tónlist, dagblöð, afnotagjöld fjölmiðla og veggjöld. Í nýtt 14% þrep færist veitingastarfsemi og sælgæti, kex og kökur, og drykkjarvörur aðrar en áfengi. Samtals skila breytingar á vsk ríkissjóði 6 ma. tekjuauka, en miðað er við að breytingin komi til framkvæmda í 2 áföngum 1. janúar og 1. mars.
Vöru- og bifreiðagjöld eiga skv. fjárlagafrumvarpi að skila 2,5 ma.kr. Frá því er nú dregnar hækkanir á bensín- og olíugjaldi vegna álagningar kolefnisskatts. Samanlögð hækkun vegna kolefnisskatta og hækkunar bensín- og olíugjalds svarar til 5-6 krónu hækkunar á verði bensínlíters.
Nýir orku-, auðlinda- og umhverfisskattar
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er orku-, auðlinda- og umhverfissköttum ætlað að skila 16 ma.kr. tekjuauka. Þessi áform hafa verið endurskoðuð og er það gert m.a. í kjölfar samráðs er tengist svk. stöðugleikasáttmála stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Hér er miðað við að þessir skattar skili samtals um 5,6 ma.kr.
- Ekki er gert ráð fyrir að skattar er tengjast ferðaþjónustu skili ríkissjóði nýjum tekjum á næsta ári en nefnd sú er unnið hefur að tillögugerð um þessa skattheimtu mun vinna áfram
- Gerð er tillaga um tímabundinn (til þriggja ára) 12 aura raforkuskatt á hverja kWh sem skili ca 1,8 ma.kr. að teknu tilliti til endurgreiðslna til garðyrkju og heimila á svk. köldum svæðum.
Tekjurnar skiptast svo:
Heimili |
85
|
Stóriðja |
1.600
|
Landbúnaður og sjávarútvegur |
15
|
Iðnaður, þjónusta o.fl. |
185
|
Samtals |
1.885 m.kr.
|
Jafnframt verði gerður samingur við helstu stórnotendur á raforku um fyrirframgreiðslu á tekjuskatti er færi ríkissjóði 1,2 m.kr. tekjur á ári árin 2010, 2011 og 2012.
Tekið verði upp kolefnisgjald sem gæti gefið ríkissjóði um 2,5 ma.kr. tekjur. Miðað yrði við gjald sem lagt er á fljótandi eldsneyti við innflutning – lítragjald – er taki mið af verði á losunarheimildum innan ESB–46 evrur (8 þús.kr.) á tonn af CO2. Gjaldið nemi 50% af ESB-gjaldinu.
Tekjurnar skiptast svo:
Flugvéla- og þotueldsneyti | 2,6 krónur á lítra | 500 |
Bensín | 2,7 krónur á lítra | 510 |
Gasolía* (dísel) | 2,9 krónur á lítra | 1.200 |
Svartolía | 3,1 krónur á lítra | 315 |
Samtals | 2.525 m.kr. | |
* Um þriðjungur er díselolía á bifreiðar, en gas- og svartolíureikingur skipa hækkar um ca. 1,1 ma.kr. |
Þá hækki tekjuskattur lögaðila úr 15% í 18%, sem skilar ríkissjóði tekjum á árinu 2011.
Önnur tekjuöflun
Þá verði gripið til eftirtalinna ráðstafana til að auka tekjur ríkissjóðs:
- Almennt tryggingagjald/atvinnutryggingagjald hækki um 1,6% er skili um 12 ma. kr.á ári.
- Heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar verði framlengd og fjárhæðin hækkuð úr 1 m.kr. í 1,5 m.kr. pr. einstakling. Talið er að viðbótartekjur ríkissjóðs á næsta ári vegna slíkrar ráðstöfunar gætu numið um 5 ma.kr. og viðbótartekjur sveitarfélaga af útsvari um 2,5 ma.kr.
- Frekari breytingar á tekjusköttum. Unnið er að útfærslu tillagna er varða tekjuskatt hjá hlutafélögum og einkahlutafélögum. Þó svo að breytingar sem þessar muni fyrst og fremst skila sér á lengri tíma má þó reikna með að einhverjar tekjur skili sér af þeim á næsta ári, eða 1-2 milljarðar króna.
- Ýmsar aukatekjur ríkissjóðs hækki, en endurskoðun á lögunum um aukatekjur ríkissjóðs fór síðast fram 2004. Áætlað er að þessi ráðstöfun geti skilað ríkissjóði allt að 1. ma.kr. í viðbótartekjum á næsta ári.
- Settur verði á auðlegðarskattur er svari til 1,25% af nettóeign umfram 90 m.kr. hjá einstaklingi og 120 m.kr. hjá hjónum. Reiknað er mað að þessi tekjuöflun gefi um 3 ma. kr., er verði nýttir til að hækka greiðslur barnabóta og vaxtabóta.