Kostnaður við vetrarþjónustu lækkar um 200 milljónir króna
Vegagerðin kynnti í gær nýjar reglur um vetrarþjónustu sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur samþykkt. Kostnaður lækkar um 200 milljónir króna á næsta ári en þjónustan verður svipuð og var árið 2006.
Vegagerðin hefur þróað tækni og búnað undanfarin ár sem gerir henni nú kleift að ná fram betra skipulagi og markvissari stjórnun við vetrarþjónustuna. Þetta þýðir að aðföng sem notuð eru í vetrarþjónustunni má nýta betur og lækka með því kostnað.
Stefnt er að því að 200 milljónir króna sparist með nýju reglunum eða um 10% af heildarkostnaði við vetrarþjónustuna í krónutölu, einsog ætlast er til samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Ef mið er tekið af verðlagsbreytingum er sparnaðurinn töluvert meiri í prósentum.
Þetta þýðir að þrátt fyrir niðurskurð á árinu 2009 næst að halda óbreyttri vetrarþjónustu út árið 2009. Til viðbótar hefur svokallaðri G-reglu verið breytt lítillega þannig að mögulegt verði að moka snjó einu sinni í viku til 5. janúar, ár hvert, leyfi aðstæður það og ekki eru aðrar samgönguleiðir að ræða. Þetta tekur gildi strax.
Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur samþykkt nýjar snjómokstursreglur. Samkvæmt þeim verður vetrarþjónustan að mestu leyti sú sama og hún var árið 2006. Breytingarnar á reglunum miða að því að tryggja umferðaröryggi svo sem kostur er.
Samráð við hagsmunaaðila
Samráð var haft við hagsmunaaðila um þessar breytingar, til dæmis flutningsaðila, sem komu með góðar hugmyndir um að mæta niðurskurðinum þannig að sem minnst áhrif yrðu á atvinnulífið í landinu.
Þjónustudögum verður fækkað á einstökum leiðum. Á fáfarnari langleiðum úr sjö dögum í sex en reynslan sýnir að umferð er í lágmarki á laugardögum. Á nokkrum öðrum leiðum þar sem þjónustudagar hafa verið færri en sjö verða þeir ýmist fimm (Hluti Borgarfjarðarvegar og hluti Kísilvegar) eða tveir (Skógarströnd, Laxárdalur að heiðinni, hluti Kísilvegar, Skriðdalur og Breiðdalur og milli Hallormsstaðar og Fljótsdalsvirkjunar).
Þjónusta á þremur umferðarminnstu fjallvegunum þar sem val er um aðrar leiðir verður felld undir G-reglu (Laxárdalsheiði og Breiðdalsheiði). Samkvæmt G-reglu er mokað tvisvar í viku, haust og vor, á meðan snjólétt er en ekki mokað frá 1. nóv. til 20. mars.
Þjónustutíminn verður styttur um hálfa klukkustund að kvöldi í þjónustuflokki 2, um eina og hálfa klukkustund í þjónustuflokki 3 og um tvær klukkustundir í þjónustuflokki 4. Um helgar styttist þessi tími tvöfalt meira og verður 2 – 4 klukkustundir. Til að koma til móts við vöruflutningaaðila á langleiðum sem eru seint á ferðinni verður heimilt að bæta kvöldþjónustuna þegar þörf reynist á Steingrímsfjarðarheiði og um Hvalnes- og Þvottárskriður.
Vegfarendur eru hvattir til að kynna sér þessar breytingar sem best og með góðum fyrirvara. Vegagerðin mun kynna þær svo sem kostur er með aðstoð fjölmiðla og á heimasíðu Vegagerðarinnar. Upplýsingar um færð er einnig hægt að nálgast í síma 1777.
Dæmi um umferð á nokkrum fjallvegum, um er að ræða vetrarumferð, bíla á dag:
Fjallvegur | Fjöldi bíla á dag |
---|---|
Fróðárheiði | 65 |
Heydalsvegur | 82 |
Laxárdalsheiði | 25 |
Kísilvegur | 65 |
Breiðdalsheiði | 20 |
Þverárfjall | 242 |