Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2009 Forsætisráðuneytið

Samstarf við aðstandendur þjóðfundarins

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var ákveðið að fela stýrihópi sóknaráætlunar fyrir Ísland að vinna með Mauraþúfunni, aðstandendum þjóðfundarins sem haldinn var 14. nóvember sl., að því að niðurstöður fundarins endurspeglist í sóknaráætluninni. Einnig verði skipaður hópur óháðra aðila til að koma með hugmyndir að því hvernig best verði hlúð að grunngildum Íslendinga í opinberri stjórnsýslu og innan stjórnarráðsins.

Hugmyndafræðin að baki fundarins var að virkja sameiginlegt innsæi og vitund almennings til að kalla fram endurmat á þeim grundvallargildum sem samfélagið er reist á og móta skýra framtíðarsýn. Í upphafi fundarins var rætt um þau gildi sem þátttakendur telja mikilvægust. Heiðarleiki var það gildi sem skar sig algjörlega úr en á eftir komu gildi eins og jafnrétti, virðing og réttlæti sem þjóðfundarfulltrúum fannst hvað mikilvægust fyrir samfélagið. Því næst völdu þátttakendur hvaða þemu (nafnorð) lýstu best framtíðinni fyrir Íslendinga. Þau eru: Menntamál, umhverfismál, fjölskyldan, velferð, atvinnulíf, sjálfbærni, jafnrétti og stjórnsýsla.

Ríkisstjórn Íslands fagnar vel heppnuðum þjóðfundi og telur rétt að niðurstöðum hans verði fylgt eftir. Hún telur mikilvægt er að einkennum fundarins, bjartsýni, von, atorku og framkvæmdavilja, verði haldið á lofti til heilla fyrir land og þjóð.


Reykjavík 20. nóvember 2009

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta