Vilja áratug aðgerða gegn umferðarslysum
Fyrsti alheimsfundur samgönguráðherra heimsins stendur nú yfir í Moskvu og er þar fjallað um umferðaröryggismál. Fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra er sendiherra Íslands í Moskvu en auk um 50 ráðherra sitja fundinn fjölmargir sérfræðingar um umferðarmál.
Að fundinum standa International Transport Forum og Sameinuðu þjóðirnar en FIA, heimssamtök bifreiðaeigendafélaga og bifreiðaíþróttafélaga, hafði frumkvæði að því að boðað var til fundarins. Fundinn sitja kringum þúsund manns, ráðherrar, fulltrúar stofnana SÞ og margra annarra félaga og samtaka sem láta sig umferðaröryggismál varða. Fundinum er ætlað að vekja ríkisstjórnir og stjórnmálamenn um heim allan til vitundar um umferðarslysavána og samþykkja áætlun um slysavarnir fyrir næsta áratuginn sem dugar til að fimm milljónir mannslífa bjargist á næstu tíu árum á vegum heimsins.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fór fram á að Benedikt Ásgeirsson, sendiherra Íslands í Moskvu, yrði fulltrúi Kristjáns L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á fundinum. Auk hans sitja fundinn þeir Steinþór Jónsson, formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda, og Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður.
Jean Todt, nýkjörinn forseti FIA, ávarpaði fundinn í morgun og sagði hann að yrði ekkert að gert myndu fimm milljón mannslíf glatast í heiminum næsta áratuginn og fimmtíu milljónir myndu slasast alvarlega og búa við varanlegt líkamstjón upp frá því. „Við vitum hvað gera þarf til að þessi líf glatist ekki. Alþjóðasamfélagið verður að bregðast við þessu og tjá pólitískan vilja sinn til að ná árangri og láta þennan fund marka tímamót í umferðaröryggismálum alls heimsins,“ sagði Jean Todt meðal annars.
Umferðarslys vaxandi faraldur
Umferðarslys eru vaxandi faraldur og ef fram fer sem horfir verða umferðarslys orðin helsta dánarorsök 5-14 ára barna í heiminum um 2015. Af þeirri ástæðu hafa FIA og aðildarfélög samtakanna um allan heim sameinast í átakinu Make Roads Safe. Í átakinu felst ákall til ríkisstjórna og valdhafa um að grípa strax til aðgerða til að draga úr þeim dauðaslysum sem spár gera ráð fyrir að verði árið 2020 um helming.
Mannfjöldaspár gera ráð fyrir því að árið 2020 verði svo komið að 1,9 milljón manns farist í umferð í heiminum. Markmið tíu ára áætlunarinnar er hins vegar það að færri en ein milljón mannslíf glatist í þessum slysum. Á ráðherrafundinum í Moskvu er fjallað um tíu ára áætlunina. Í henni er skilgreint í tíu liðum hvað gera þurfi til að ná þessum markmiðum. Það á meðal annars að gerast með því að sameina stjórnmálaöfl, almenningsálit og kalla fram virkan stuðning almennings. Jafnframt verði séð til þess að vegakerfi og umferðarmannvirki verði framvegis hönnuð með vernd vegfarenda í huga
Nú þegar farast ámóta margir í umferðarslysum og láta lífið af völdum malaríu og berkla. Allar spár gera ráð fyrir því að dauðsföllum í umferðinni muni fjölga mjög á næstu árum verði ekki gripið til róttækra aðgerða þegar í stað. Í hnotskurn er staðan nú þessi:
* Árið 2030 gera spár ráð fyrir því að um það bil helmingi fleiri farist í umferðarslysum í heiminum en í dag.
* Um það bil 1,3 milljónir manns munu týna lífi á vegum heimsins á þessu ári. Yfir 90 prósent þessara dauðaslysa verða í fátækustu löndum heimsins.
* Umferðarslys eru algengasta dánarorsök ungs fólks á aldrinum 15-19 ára í þróunarlöndunum og önnur algengasta dánarorsök 5-14 ára barna.