Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra afhendir Svansvottun

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhenti nýverið ræstingarsviði ISS Ísland vottun Norræna umhverfismerkisins Svansins. Mikill áhugi virðist nú vera fyrir Svansvottun og þrettán fyrirtæki hafa sótt um vottunina til Umhverfisstofnunar í ár. Ein af ástæðum þessa aukna áhuga fyrir vottun er vistvæn innkaupastefna ríkisins sem var innleidd í vor. Stefnan hefur að leiðarljósi að minnka umhverfisáhrif opinberra innkaupa og bæta samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja sem þurfa að bjóða umhverfisvænni valkosti til að mæta kröfum ríkisins. Reykjavíkurborg hefur einnig markað sér slíka stefnu. Við afhendingu Svansvottunarinnar sagði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra að vistvæn innkaupastefna ríkisins hefði haft tilætluð áhrif og það lýsi sér í auknum áhuga á Svansvottun. Umhverfisstofnun hefur sett sér það markmið að gefa út 20 leyfi fyrir notkun Svansmerkisins árið 2010, en þau eru nú fjögur.

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum.

Sjá nánar á heimasíðu Umhverfisstofnunar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta