Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2009 Innviðaráðuneytið

Ráðherra undirritar viðauka við Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, undirritaði í síðustu viku viðauka við Evrópusáttmála um sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga. Viðaukinn fjallar um rétt borgara til þátttöku á sveitarstjórnarstigi.Viðaukinn var undirritaður í tengslum við ráðherrafund sveitarstjórnarráðherra Evrópuráðsins er fram fór í Utrecht í Hollandi 15. til 17. nóvember.

Með viðaukanum skuldbinda aðildarríkin sig til þess að tryggja að allir menn innan lögsögu þeirra njóti réttar til þátttöku í sveitarstjónarmálum. Í réttinum til þátttöku í sveitarstjónarmálum felst réttur til að leitast við að ákveða eða hafa áhrif á með hvaða hætti sveitarstjórnir fara með umboð sitt og gegna ábyrgðarskyldum sínum. Viðaukinn gerir ráð fyrir því að með lögum skuli kveðið á um með hvaða hætti sé unnt að auðvelda einstaklingum að nýta sér þennan rétt.

Ráðherra hefur óskað eftir því við endurskoðun sveitarstjórnarlaga, sem nú stendur yfir undir forystu Trausta Fannars Valssonar, lektors við Háskóla Íslands, verði efni viðaukans haft til hliðsjónar þannig að hægt verði að fullgilda hann eigi síðar en í ársbyrjun 2011. Jafnframt leggur ráðherra áherslu á að náið samráð verði haft við Samband íslenskra sveitarfélaga um þá útfærslu. Fullgilding viðaukans er liður í þeirri stefnumrökun ríkisstjórnarinnar að unnið verði að eflingu lýðræðis á sveitarstjórnarstigi í samvinnu við sveitarfélög og í samráði við íbúa um land allt.

Á fundinum í Utrecht undirrituðu auk Íslands 11 ríki viðaukann við Evrópusáttmálann um sjálfsstjórn sveitarfélaga.

Ráðherra undirritar viðauka við Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, undirritar sáttmálann að viðstöddum fulltrúum Evrópuráðsins.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta