Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Frumvarp um aukna umhverfisábyrgð

Umhverfisráðuneytið
Umhverfisráðuneytið

Vernd náttúru og umhverfis er aukin til mikilla muna með nýju frumvarpi um ábyrgð þess sem veldur umhverfisstjóni frá ákveðinni starfsemi. Frumvarpið er byggt á mengunarbótareglunni og felur í sér að þeim sem veldur tjóni á umhverfinu ber að bæta það, án tillits til þess hvort rekja megi tjónið til ásetnings eða gáleysis og þess hvort mengunin valdi einkaaðilum tjóni.

Öllum er gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við frumvarpsdrögin og er unnt að senda þær inn til og með 17. desember næstkomandi á netfangið [email protected]. Hér má nálgast drögin að frumvarpinu í heild sinni (pdf-skjal).

Lögunum er ætlað að auka ábyrgð þess sem veldur tjóni á umhverfinu og að koma í veg fyrir mengunarslys. Með tjóni á umhverfi er átt við tjón á vatni, landi og á vernduðum tegundum, búsvæðum og vistgerðum. Starfsemi sem fellur undir frumvarpið er aðallega mengandi starfsemi, svo sem rekstur verksmiðja, meðhöndlun úrgangs, losun efna í vatn, framleiðsla, flutningur hættulegra og skaðlegra efna og flutningur úrgangs milli landa. Þá fellur framleiðsla, meðferð og notkun á erfðabreyttum lífverum einnig undir frumvarpið, auk vatnstöku og vatnsmiðlunar.

Samkvæmt frumvarpinu er þeim sem veldur umhverfistjóni eða yfirvofandi hættu á slíku tjóni bæði skylt að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir yfirvofandi tjón og bæta úr tjóni ef það hefur orðið og greiða kostnað af þeim ráðstöfunum. Jafnframt skal honum skylt að tilkynna stjórnvaldi ef umhverfistjón verður og gefa upplýsingar um allar aðstæður. Stjórnvöld geta einnig krafist upplýsinga og gert rekstraraðila skylt að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir og gefið fyrirmæli um hvaða ráðstafanir skuli gerðar. Þá geta stjórnvöld einnig látið framkvæma slíkar ráðstafanir á kostnað rekstraraðila. Frumvarpið felur ekki í sér breytingar á skyldu stjórnvalda að rannsaka, fyrirbyggja eða bæta úr tjóni á náttúru og umhverfi, þegar þeirri skyldu er ekki sinnt af rekstraraðila. Umhverfisábyrgð gildir ekki um umhverfistjón ef meira en 30 ár er liðin síðan það varð.

Hér á landi hafa ekki verið sett almenn lög um skaðabótaábyrgð vegna umhverfistjóns eins og gert hefur verið í flestum nálægum löndum. Þó má í ýmsum lögum finna reglur um slíka ábyrgð, t.d. í lögum um vernd gegn mengun hafs og stranda.

Mengunarbótareglan er ein af meginreglum umhverfisréttar sem hafa öðlast viðurkenningu í alþjóðarétti og landsrétti þjóða. Þær eiga fyrst og fremst uppruna sinn í alþjóðasamvinnu ríkja um umhverfismál. Þar hafa einkum tvær ráðstefnur Sameinuðu þjóðanna verið stefnumarkandi, Stokkhólmsráðstefnan um umhverfi mannsins sem haldin var árið 1972 og Ríó-ráðstefnan um umhverfi og þróun sem haldin var árið 1992, en Ísland átti aðild að þeim báðum. Í Ríó-yfirlýsingunni voru staðfestar nokkrar grundvallarreglur um samskipti manns og umhverfis sem stuðla eiga að sjálfbærri þróun, en þar á meðal eru helstu meginreglur umhverfisréttarins. Voru ríki heims hvött til þess að taka þessar reglur upp í umhverfislöggjöf sína. Síðan þá hefur sjálfbær þróun haft veigamikil áhrif á þróun umhverfisréttar auk þess sem meginreglur umhverfisréttarins hafa fest enn frekar í sessi. Mengunarbótaregluna er að finna í reglu 16 í Ríó-yfirlýsingunni.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta