Fulltrúar ungs fólk vilja aðgerðir í loftslagsmálum
Fulltrúar ungra félaga í Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hafa afhent Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra áskorun þar sem íslensk stjórnvöld eru hvött til að sýna öðrum þjóðum heims gott fordæmi í loftslagsmálum. Áskorunin er svohljóðandi:
Helmingur íbúa jarðar er undir 25 ára aldri. Við undirrituð tilheyrum þessum hópi. Við þurfum að lifa með afleiðingum þeirra ákvarðanna sem teknar verða á fundi um loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn dagana 7. - 18. desember.
Við sjáúm ísjakann, við vitum að við munum sigla beint á hann ef ekkert verður að gert. Við ungir félagar í Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi krefjumst þess að það verði tekið föstum höndum um stýrið og því snúið í rétta átt til að forðast þann árekstur sem mun hafa hörmulegar afleiðingar fyrir alla íbúa jarðar.
Því skorum við á íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir að:
- Lögð verði áhersla á að auka rannsóknir og þekkingu í loftslagsmálum.
- Þjóðir heims setji af stað alheimsfræðsluátak um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á lífskjör fólks í heiminum. Að fólki verði gerð grein fyrir þeim áhrifum sem Vesturlöndin eru að hafa á þróunarlöndin með gjörðum sínum.
- Ýtt verði undir notkun endurnýjanlegra orkugjafa og að aðrir orkugjafar sem ekki valda loftslagsbreytingum verði skoðaðir.
- Þjóðir heims minnki útblástur gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu og dragi úr áhrifum loftslagsbreytinga.
- Lögð verði áhersla á að aðstoða þróunarlöndin við að mæta skilyrðum Kýótó bókunarinnar.
Við skorum á íslensk stjórnvöld að sýna öðrum þjóðum heims gott fordæmi með því að:
- Auka rannsóknir og þekkingu á sviði loftslagsbreytinga hérlendis.
- Auka fræðslu á sviði loftslagsbreytinga fyrir almenning á Íslandi.
- Stuðla að öflugri reiðhjólamenningu.
- Auðvelda almenningi að nýta sér almenningssamgöngur með því að bæta aðgengi að þeim.
- Hluti af þróunarsamvinnu Íslands felist í því að aðstoða þróunarlöndin við að mæta skilyrðum Kýótó bókunarinnar.
- Nýta það metangas sem til fellur í landinu.
- Stuðla að rafbílavæðingu landsins með hagrænum aðgerðum s.s. lgæri innflutningsgjöldum á rafbíla og góðu aðgengi að rafmagni fyrir rafbíla.
Heimasíða Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.