Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2009 Matvælaráðuneytið

Samkomulag Íslands og Evrópusambandsins um aðgerðir gegn ólöglegum veiðum

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009 var undirritað samkomulag Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um sérstök skilyrði við framkvæmd reglugerðar Evrópusambandsins (ESB) nr. 1005/2008, með tilliti til útflutnings á íslenskum sjávarafurðum inn á markaðssvæði Evrópusambandsins og innflutnings erlendra afurða til Íslands. Markmið reglugerðarinnar er að leitast við að koma í veg fyrir innflutning sjávarafurða sem eiga uppruna sinn í ólöglegum veiðum (IUU-fishing) inn á markaði Evrópusambandsins. Reglugerðin setur þau skilyrði fyrir innflutningi sjávarafurða að svokallað veiðivottorð fylgi öllum sendingum til ESB. Með þessu sérstaka samkomulagi er gert ráð fyrir því að fyrir afurðir af íslenskum uppruna geti íslenskir útflytjendur sjálfir fyllt út sérstakt íslenskt veiðivottorð, sem byggir á upplýsingum úr vigtarnótum og verður vistað á vef Fiskistofu. Með tilkomu þessa vottorðs er nauðsynlegt að framleiðendur fiskafurða haldi saman upplýsingum um það úr hvaða skipum og af hvaða löndunardagsetningum er verið að vinna afla hverju sinni. Útflytjendur munu á grundvelli þessara upplýsinga fylla út veiðivottorð sem afgreidd verða rafrænt á Fiskistofu. Fyrir innfluttan afla sem ætlunin er að senda áfram inn á markað Evrópusambandsins er nauðsynlegt að veiðivottorð frá fánaríki fylgi aflanum, auk staðfestingar á því að aflinn hafi annaðhvort ekki undirgengist neina vinnslu hér á landi, eða að hann hafi verið unninn hér á landi.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið mun á næstu dögum boða til kynningarfundar um þessar nýju kröfur Evrópusambandsins, samkomulagið sem gert hefur verið við Evrópusambandið og hvernig framkvæmd þess verður háttað hér á landi. Fiskistofa mun þar kynna veiðivottorðin sjálf og kerfið í kringum þau.

Samkomulag Íslands og Evrópusambandsins er að finna hér.

Nánari upplýsingar um reglugerðina og innleiðingu hennar hjá Evrópusambandinu er að finna á :http://ec.europa.eu/fisheries/cfp/external_relations/illegal_fishing_en.htm



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta