Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2009 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra undirritaði samning við ESB um eflingu lögreglusamstarfs yfir landamæri

Ragna Árnadóttir undirritar Prum-samninginn.
Ragna Árnadóttir undirritar Prum-samninginn.

Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra undirritaði í Brussel í dag samning við Evrópusambandið um eflingu lögreglusamstarfs yfir landamæri, einkum í baráttunni gegn hryðjuverkum og glæpastarfsemi.

Samningurinn, sem jafnan er kallaður Prüm-samningurinn, felur m.a. í sér gagnkvæman uppflettiaðgang aðildarríkja ESB, Íslands og Noregs að fingrafara- og erfðaefnisskrám lögreglu, sem og að ökutækjaskrám. Með samningnum eru ákvæði tveggja gerða ESB tekin upp á Íslandi og segir Ragna að með þessu samstarfi séu lögreglu veittar nýjar og auknar heimildir í baráttunni gegn glæpastarfsemi yfir landamæri og um sé að ræða mikilvægt framfaraskref í alþjóðlegu lögreglusamstarfi. Gert er ráð fyrir að öll aðildarríki ESB verði tæknilega tilbúin til að skiptast á upplýsingum úr gagnabönkum á síðari hluta árs 2011.

Ráðherrar ræddu stöðu upplýsingakerfa á sviði Schengen-samstarfsins

Ragna sat einnig fund í dag í samsettu nefndinni í Brussel með dómsmála- og innanríkisráðherrum ESB- og Schengen-ríkja. Umræðuefni fundarins var m.a. staða tveggja upplýsingakerfa á sviði Schengen-samstarfsins, Schengen-upplýsingakerfisins (SIS) og nýs upplýsingakerfis um vegabréfsáritanir (VIS).

Vinna við stækkun Schengen-upplýsingakerfisins (SIS) stendur yfir en áætlunum um að taka stækkað kerfi í notkun hefur seinkað nokkuð. Þá er í smíðum nýtt upplýsingakerfi um áritanir (VIS) sem mun m.a. geyma fingraför og myndir af öllum einstaklingum sem sækja um vegabréfsáritun inn á Schengen-svæðið. Samkvæmt nýrri tímaáætlun, sem samþykkt var á fundinum, mun kerfið verða tilbúið til gangsetningar í desember á næsta ári.

Þá var einnig rætt um nýja Evrópusambandsstofnun sem fyrirhugað er að setja á fót en henni er ætlað að hafa umsjón með þeim upplýsingakerfum sem nú eru starfrækt á sviði dóms- og innanríkismála; SIS, VIS og EURODAC, en hið síðastnefnda geymir upplýsingar um hælisleitendur. Þar sem Ísland er aðili að öllum þeim upplýsingakerfum sem stofnuninni er ætlað að reka mun það einnig eiga aðild að henni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum