Ráðherrafundur WTO í Genf, 30. nóvember til 2. desember 2009
Sjöundi ráðherrafundur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) var haldinn í Genf í Sviss 30. nóvember til 2. desember 2009. Ráðherrafundurinn, sem hefur æðsta vald í málefnum WTO, er jafnan haldinn á tveggja ára fresti. Ákveðið var á fundinum að næsti ráðherrafundur yrði haldinn í lok árs 2011.
Kristinn F. Árnason, sendiherra og fastafulltrúi Íslands í Genf, ávarpaði fundinn fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Í ræðu Íslands var fjallað um fjármálakreppuna og áhrif hennar á efnahagslíf aðildarríkja WTO. Sérstaklega var fjallað um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og framkvæmd endurreisnaráætlunar íslenskra stjórnvalda í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þá var minnt á mikilvægi regluverks WTO fyrir alþjóðaviðskipti og þýðingu þess fyrir efnahagsbata á heimsvísu að ljúka sem fyrst Doha-samningalotunni um aukið frjálsræði í viðskiptum.
Þrátt fyrir að fundurinn í Genf væri ekki eiginlegur samningafundur var Doha-samningalotan, fundargestum ofarlega í huga eins og fram kom í samantekt fundarstjórans Andrés Velasco efnahagsráðherra Síle. Hann sagði viðskipti og Doha-samningalotuna gegna lykilhlutverki í endurreisn efnahagslífsins og ljúka þyrfti lotunni á árinu 2010.
Framkvæmdastjóri WTO, Pascal Lamy, sagði á blaðamannafundi í gær að yfirlýsingar ráðherranna á fundinum hefðu blásið „pólitísku“ lífi í lotuna sem myndi nýtast við samningavinnuna á komandi mánuðum. Framkvæmdastjórinn sagði vel gerlegt að ljúka lotunni á árinu 2010 en það réðist á endanum af vilja aðildarríkjanna. Samantekt fundarstjórans og frekari upplýsingar um ráðherrafundinn má nálgast á heimasíðu WTO á vefslóðinni www.wto.org.
Smellið hér til þess að sækja eintak af ræðunni (pdf skjal 14,3 Kb)