Frumvarp lagt fram um innistæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta
Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta.
Tilgangur frumvarpsins er að innleiða breytingar á tryggingarkerfinu til samræmis við breytingar á regluverki Evrópusambandsins. Þá kalla þær ábyrgðir sem fallið hafa á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta á heildarendurskoðun á lögunum.
Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að stofnaðar verði tvær innstæðudeildir, A-deild og B-deild.
A-deildinni er ætlað að vera hin nýja innstæðudeild er taki til starfa þann 1. janúar 2010, verði frumvarpið að lögum. Frá þeim tíma skulu innlánsstofnanir greiða iðgjald til A-deildar.
Ýmsar breytingar verða á iðgjaldakerfinu, m.a. með tilliti til breytilegrar áhættu innlánsstofnana. Iðgjöld hækka einnig umtalsvert til að flýta fyrir sjóðsmyndun. Jafnframt verða greiðslur til sjóðsins ársfjórðungslega í stað árlega. Með því er ætlunin að greiðslur til sjóðsins taki betur mið af vexti innistæðna.
B-deildinni er ætlað að starfa samkvæmt gildandi lögum nr. 98/1999. Skal B-deild lögð niður þegar greiðslu skuldbindinga hennar er lokið vegna ábyrgða sem fallið hafa á innstæðudeild sjóðsins fyrir gildistöku laganna.
Verði frumvarpið að lögum hefur það engin áhrif á fyrri og ítrekaðar yfirlýsingar ríkisstjórna um að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi séu tryggðar að fullu. Þessi yfirlýsing er þannig enn í fullu gildi.
Frumvarp til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.