Hoppa yfir valmynd
7. desember 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Árétting vegna umfjöllunar um tölvupóstsamskipti fv. ráðuneytisstjóra

Í tilefni af fréttaflutningi um tölvupóstsamskipti Indriða H. Þorlákssonar þáverandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins og Marks Flanagan formanns sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Icesave samningana þykir rétt að eftirfarandi komi fram.

1.
Umrædd tölvupóstsamskipti hafa verið aðgengileg alþingismönnum frá því að frumvarp um ábyrgð ríkissjóðs á lánum vegna Icesave var lagt fram í júní sl.

Ekki var unnt að gera tölvupóstsamskiptin, auk ýmissa annrra gagna, opinber á upplýsingasíðu stjórnvalda, island.is, líkt og gert var með flest önnur gögn málsins án samþykkis gagnaðila Íslands í alþjóðasamskiptum. Því var gripið til þess ráðs að gera þau aðgengileg alþingismönnum gegn yfirlýsingu um trúnað. Listi yfir þessi gögn er að finna á island.is.

2.
Aðdragandi tölvupóstsamskiptana er að ný samninganefnd um Icesave hafði unnið að undirbúningi fyrir viðræður við Breta og Hollendinga í nokkrar vikur. Viðræður fyrri samninganefndar höfðu legið niðri og ekki skilað árangri í því að fá því breytt sem fyrir lá í viljayfirlýsingu (MoU) við Holland þar sem kveðið var á um 10 ára lán með 6,7% ársvöxtum og yfirlýsingum um væntanlegt samkomulag við Breta um hliðstæða lausn.

Nýja samninganefndin hafði mótað hugmyndir um nýja nálgun sem var þessu frábrugðin og hagstæðari Íslandi. Megindrættir þeirrar hugmyndar höfðu verið kynntir með óformlegum hætti fyrir Bretum og Hollendingum sem tóku henni dræmlega en útilokuðu ekki að skoða hana nánar.

Fundur samninganefndanna til að ræða þetta og hvernig koma mætti viðræðum af stað hafði verið ákveðinn í Kaupmannahöfn skömmu síðar.

3.
Viðræður við AGS um endurskoðun á áætlun sjóðsins hafði farið fram nokkru áður. Þar var farið yfir hvernig miðað hefði með þau efnisatriði sem tiltekin voru í samkomulaginu við sjóðinn. Samningar við Breta og Hollendinga voru þar á meðal og því þótti rétt að gera sendinefnd sjóðsins grein fyrir stöðu þess.

Tilgangurinn var annars vegar að sýna fram á að af Íslands hálfu væri verið að vinna að lausn á málinu sem legið hafði niðri um langa hríð.

Hins vegar var ætlunin að fá mat sjóðsins á þeirri nýju nálgun sem unnið hafði verið og stuðning við hana ef til slíks gæti komið. Til að undirstrika það var bent á að samningar samkvæmt fyrri hugmyndum væru óaðgengileg lausn fyrir Ísland. Í svari sjóðsins kemur fram að þótt þeir geti ekki haft bein afskipti af samningunum töldu þeir tillögur Íslands færa leið.

Á vorfundi AGS síðar í apríl notuðu fulltrúar Íslands öll tækifæri til fundarhalda með aðildarríkjum sjóðsins til að kynna afstöðu Íslands og þær hugmyndir sem lagðar hefðu verið fram af þess hálfu.

4.
Í fyrri hluta apríl hafði fjármálaráðherra gert utanríkismálanefnd Alþingis grein fyrir stöðunni í viðræðunum og m.a. því að hugmyndir væri uppi um nýja nálgun að lausn sem kynni að reynast Íslandi hagkvæmari en fyrri hugmyndir um samninga.

5. 
Fundurinn í Kaupmannahöfn varð til þess að Bretar og Hollendingar féllust á að skoða hugmyndir íslensku samninganefndarinnar enn frekar. Á samningafundum sem fram fóru í kjölfarið náðist að lokum fram samþykki þeirra á að fara þá leið sem fól í sér að nýta að fullu eignir þrotabús Landsbanka Íslands til að greiða skuldbindingar Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og að fé úr ríkissjóði og ábyrgð kæmi ekki til framkvæmda fyrr en að 7 árum liðnum. Byggðust samningarnir að lokum á því.

6. 
Þess má og geta að Indriði H. Þorláksson tilgreinir einkanetfang sitt af þeirri ástæðu að hann var á förum til Kaupmannahafnar daginn eftir og taldi að hann ætti auðveldara aðgengi að væntanlegu svari með þeim hætti.

Skeytið til Mark Flanagan var sent úr tölvupóstkerfi stjórnarráðsins og reyndin var sú að svarskeytið barst einnig þangað og eru vistuð þar. Þá voru afrit(cc.) af skeyti Indriða H. Þorlákssonar og svari Mark Flanagan sent á embættisnetföng fjármálaráðherra, formann samninganefndarinnar auk starfsmnanns hennar. Engin hætta var á því að samskiptin færu fram hjá skjalakerfi ráðuneytisins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta