Hoppa yfir valmynd
7. desember 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Meðallaun ríkisstarfsmanna 458 þ.kr. á mánuði

Viðskiptablaðið komst að rangri niðurstöðu við útreikning á meðallaunum ríkisstarfsmanna í frétt þann 19. nóvember sl. Þar sagði að þau væru 527 þ.kr. á mánuði (en hið rétta er 458 þ.kr. á mánuði m.v. fyrstu 10 mánuði ársins). Þann 30. nóvember sl. ritaði Margrét Kristmannsdóttir leiðara í Fréttablaðið undir yfirskriftinni „Gjá milli geira“. Þar vísaði hún til fyrrgreindar fréttar Viðskiptablaðsins og dregur af henni þá röngu ályktun að ríkisstarfsmenn hafi ekki þurft að taka á sig kjaraskerðingu í kjölfar efnahagshrunsins. Aðhaldsaðgerðir við rekstur ríkisins hafa því miður leitt til launa- og kjaraskerðingar hjá ríkisstarfsmönnum þrátt fyrir að álag á þá hafi aldrei verið meira.

Í frétt Viðskiptablaðsins kemur réttilega fram að fjöldi ársverka hjá ríkinu séu í ár 18.600. Þar eru heildarlaunagreiðslur ríkisins sagðar vera 123,5 ma.kr. á yfirstandandi ári. Þar er líklega vitnað í launalið fjárlaga ársins 2009. Þá segir að séu launatengd gjöld dregin frá þessari upphæð nemi heildarlaunagreiðslurnar 117,7 ma.kr. Með því að deila þeirri tölu með fjölda ársverka kemst blaðið að þeirri niðurstöðu að meðallaun ríkisstarfsmanna eru 527 þ.kr. á mánuði. Það stenst ekki.

Útreikningar Viðskiptablaðsins byggja á röngu mati á vægi launatengdra gjalda og ganga því ekki upp. Blaðið virðist gera ráð fyrir að launatengd gjöld séu tæp 5%. Hið rétta er að þau eru 21% og er launaliður fjárlaga að þeim frádregnum því 102,1 ma.kr. Með því að beita sömu aðferð og Viðskiptablaðið er niðurstaðan sú að meðallaun ríkisstarfsmanna eru 457 þ.kr. á mánuði sem er aðeins eitt þúsund krónum lægra en þau eru nú.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta