Hoppa yfir valmynd
8. desember 2009 Matvælaráðuneytið

Nr. 45/2009 - Álag á óvigtaðan afla sem fluttur er á markað erlendis

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. maí kemur skýrt fram að knýja eigi á um frekari fullvinnslu afla hérlendis með því m.a. að skoða hóflegt útflutningsálag á fisk og/eða að óunninn afli verði settur á innlendan markað.

Þann 28. október sl. voru kynntar að hálfu Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra áformaðar breytingar á reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla er varða útflutning á óvigtuðum afla íslenskra skipa og framkvæmd úrtaksvigtunar við endurvigtun sjávarafla. Aðilum var gefinn kostur á því að koma athugasemdum á framfæri við ráðuneytið og bárust 29 athugasemdir frá einstaklingum, hagsmunasamtökum og öðrum sem málið varðar. Af fram komnum athugasemdum má ráða að fyrirhugaðar breytingar hefðu í för með sér aukinn kostnað og óhagræði fyrir útgerðarmenn sem hafa hug á því að flytja óvigtaðan afla á markað erlendis án þess þó að tryggja að aðgengi innlendra kaupenda að aflanum væri aukið, sem er það markmið sem stjórnvöld hafa stefnt að.

 

Meginreglan hlýtur ávallt að vera sú að allur afli af Íslandsmiðum skuli vigtaður hér á landi og  slík tilhögun má aldrei verða mönnum í óhag. Fyrir því eru m.a veigamikil rök er snerta fiskveiðistjórnunina. Fyrir liggur að fiskur rýrnar nokkuð á þeim tíma sem líður frá því hann er veiddur og þar til hann er vigtaður. Má leiða líkur að því að þegar afli er fluttur úr landi til vigtunar á markaði erlendis líði almennt lengri tími þar til að vigtun kemur en þegar vigtun afla er lokið hér á landi og því hafi rýrnun orðið meiri en ella.

 

Til að jafna stöðu þeirra sem ljúka vigtun sjávarafla hér á landi og þeirra sem vigta afla sinn erlendis hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason nú ákveðið að frá og með næstu áramótum skuli  botnfiskafli sem fluttur er óunninn á markað erlendis án þess að hafa verið endanlega vigtaður og skráður í aflaskráningarkerfi Fiskistofu reiknaður með 5% álagi til aflamarks. Að svo stöddu er fallið frá hugmyndum um breytingar á reglum um vigtun og skráningu sjávarafla sem kynntar voru í október sl. og að sama skapi verða undanþágur til vigtunar erlendis ekki afnumdar. Til athugunar er þó áfram sérstakt fyrirkomulag vigtunar á fiskmörkuðum. Aðilar sem fyrirhuga að flytja út óvigtaðan afla þurfa eftir sem áður að skrá afla sinn á Fjölnetið og hefur ráðherra í hyggju að setja frekari reglur um uppoðið í þeim tilgangi að hvetja til þess að viðskipti með afla geti orðið. Breyttar reglur snúa m.a. að hámarksstærð eininga sem boðin eru og gengið verður fastar eftir því að allur óvigtaður afli verði boðinn upp í gegnum Fjölnetið.

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason tiltekur jafnframt að stefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum er skýr. Af því leiðir að verði þessar ráðstafanir ekki til þess að tryggja betra aðgengi fiskvinnslna að íslenskum fiski mun ráðuneytið án alls vafa grípa til frekari ráðstafana í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta