Viðamiklar breytingar boðaðar á regluverki um hlutafélög og fjármálamarkað
Efnahags- og viðskiptaráðherra leggur á annan tug frumvarpa fram á Alþingi.
Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur að undanförnu lagt fram á Alþingi 14 frumvörp til laga og breytinga á gildandi lögum. Meðal annars er um að ræða breytingar á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög sem ætlað er að auka jafnræði hluthafa, gagnsæi í eignarhaldi og jafnrétti í stjórnum og framkvæmdastjórn fyrirtækja. Þá er lagðar til viðamiklar breytingar á lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingasjóði og fagfjárfestasjóði og grunnur er lagður að framtíðarkerfi innstæðutrygginga, svo fátt eitt sé nefnt. Meðal annarra mála sem ráðherra hyggst leggja fyrir í desember er umfangsmikið frumvarp byggt á gagngerri endurskoðun á lögum um starfsemi fjármálafyrirtækja.
Aukið gagnsæi í eignarhaldi og upplýsingagjöf og jafnrétti kynja
Breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög er ætlað að auka gagnsæi varðandi eignarhald og jafnrétti kynja í stjórnum og meðal framkvæmdastjóra.
Brýnt er að auka gagnsæi á eignarhaldi og atkvæðisrétti hluthafa í íslenskum hlutafélögum, í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið undanfarna mánuði. Með lagabreytingunum er ætlunin að styrkja til muna gildandi reglur um starfsemi hlutafélaga og einkahlutafélaga, þannig að hlutaskrá geymi á hverjum tíma réttar upplýsingar um hluthafa,hlutafjáreign þeirra og atkvæðisrétt. M.a. eru lagðar ríkar skyldur á stjórnir félaganna að sjá til þess að hlutaskráin geymi á hverjum tíma réttar upplýsingar um þessi atriði.
Þá hefur ráðherra einnig lagt fram frumvarp til innleiðingar á EES-reglum sem ætlað er að auka réttindi og áhrif hluthafa í félögum sem hafa skráð skuldabréf eða hlutabréf á skipulegum verðbréfamarkaði.
Gagnger endurskoðun á reglum um rekstur og fjárfestingar verðbréfasjóða
Frumvarp ráðherra til breytinga á lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingasjóði og fagfjárfestasjóði er byggt á ítarlegri endurskoðun á gildandi lögum sem fram fór í kjölfar hruns stærstu viðskiptabankanna. Nefnd á vegum ráðherra endurskoðaði allt regluverkið og gerði tillögur að breytingum á ákvæðum um fjárfestingarheimildir, eignarhald, óhæði rekstrarfélaga, lagaumhverfi fagfjárfestasjóða o.fl. Þá er ætlunin að innleiða nauðsynlegar breytingar sem fram koma í tilskipunum ESB um sameiginlega fjárfestingu.
Meðal þess sem tekið er á í frumvarpinu eru tengsl rekstrarfélaga sjóða, móðurfélaga rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja. Einnig eru settar fram mun skýrari reglur og hömlur á fjárfestingu í einstökum félögum eða tengdum aðilum, en sem kunnugt er hefur komið fram mikil gagnrýni á áhættusækin viðskipti með verðbréf aðila sem voru tengdir innbyrðis eða tengdir rekstrarfélögum og vörslufyrirtækjum peningamarkaðsjóðanna fyrir hrun.
Grunnur lagður að nýju kerfi innstæðutrygginga
Tilgangur frumvarpsins um innistæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta er að innleiða breytingar á tryggingarkerfinu til samræmis við breytingar á regluverki Evrópusambandsins. Þá kalla þær ábyrgðir sem fallið hafa á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta á heildarendurskoðun á lögunum. Ný lög hafa hinsvegar engin áhrif á fyrri og ítrekaðar yfirlýsingar ríkisstjórna um að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi séu tryggðar að fullu.
Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að stofnaðar verði tvær innstæðudeildir, A-deild sem verður hin nýja innistæðudeild og B-deild sem starfar samkvæmt gildandi lögum og verður lögð niður þegar greiðslu er lokið vegna ábyrgða sem fallið hafa á innistæðudeild sjóðsins fyrir gildistöku nýrra laga.
Ýmsar breytingar verða á iðgjaldakerfinu, m.a. með tilliti til breytilegrar áhættu innlánsstofnana. Iðgjöld hækka einnig umtalsvert og greiðslur verða tíðari til að flýta fyrir sjóðsmyndun.
Vátryggingastarfsemi, peningaþvætti, bókhald og endurskoðendur
Meðal annarra lagafrumvarpa sem efnahags- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram á Alþingi eru frumvarp um heildarendurskoðun á lögum um vátryggingastarfsemi , þar sem m.a. eru lagðar til breytingar á hæfisskilyrðum og heimildum til stjórnarsetu. Einnig eru lagðar til þrengingar á heimildum vátryggingafélaga til hliðarstarfsemi og fjárfestingastarfsemi.
Frumvarpi um peningaþvætti er ætlað að koma til móts við athugasemdir sem hinn alþjóðlegi framkvæmdahópur FATF (e. Financial Action Task Force) gerði við íslenskt regluverk á þessu sviði í úttekt sinni árið 2006, auk þess sem brugðist er við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA sem fram komu vorið 2008 og varða innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins.
Einnig hefur ráðherra lagt fram þrjú frumvörp sem varða lög um ársreikninga, bókhald og endurskoðendur. Megintillögurnar fela í sér að störf endurskoðenda og skoðunarmanna verða lögð að jöfnu, auk þess sem heimilt er að hafa bókhaldstexta á ensku og dönsku.