Hoppa yfir valmynd
15. desember 2009 Dómsmálaráðuneytið

Viðbótarfrestur vegna umsóknar um stöðu íslensks dómara við Mannréttindadómstól Evrópu

Mannrettindadomstóllinn í Strassborg.
Mannréttindadómstóll Evrópu.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita viðbótarfrest vegna umsóknar um að fara á lista sem dómaraefni af Íslands hálfu við Mannréttindadómstól Evrópu til og með 22. desember nk. Fresturinn rann út 3. desember síðastliðinn en þar sem dómstóllinn leggur áherslu á að á listanum séu dómaraefni af báðum kynjum og eingöngu hafa borist umsóknir frá körlum eru konur sérstaklega hvattar til að sækja um.

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg fjallar um mál sem til hans er vísað af einstaklingum og samningsaðilum vegna meintra brota á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu eða samningsviðaukum við hann. Dómstóllinn er skipaður einum dómara frá hverju samningsríkja og er hver dómari skipaður til sex ára í senn. Kjörtímabil íslensks dómara við dómstólinn rennur út 31. október 2010 en sérstök athygli er vakin á því að taki viðauki nr. 14 við Mannréttindasáttmálann gildi áður en kosning dómara fer fram í apríl 2010 mun kjörtímabil þess dómara er nú situr framlengjast um þrjú ár eða til 2013.

Um hæfisskilyrði dómara við mannréttindadómstólinn er fjallað í 21. gr. mannréttindasáttmálans og kemur þar fram að dómarar skuli vera menn grandvarir og verði þeir annaðhvort að fullnægja kröfum um hæfi til að gegna æðri dómarastörfum eða vera lögvísir svo orð fari af. Þeir skuli skipa sæti sitt sem einstaklingar og meðan kjörtímabil þeirra varir skuli þeir ekki taka þátt í neinni starfsemi sem sé ósamrýmanleg sjálfstæði þeirra, hlutleysi eða kröfum sem gerðar eru til fulls dómarastarfs. Þá gerir dómstóllinn þá kröfu að dómari hafi gott vald bæði skriflega og munnlega á öðru tveggja opinberra tungumála réttarins, þ.e. ensku eða frönsku, og nokkurn skilning á hinu.

Umsóknarfrestur er til og með 22. desember 2009. Er þess óskað að umsóknir berist á sérstökum eyðublöðum sem nálgast má hér.

Upplýsingar um starfskjör og stöðu dómara við Mannréttindadómstólinn má finna hér. Frekari upplýsingar veitir Bryndís Helgadóttir, settur skrifstofustjóri, í síma 545 9000, netfang: [email protected].

Sjá einnig meðfylgjandi pdf-skjöl frá Mannréttindadómstólnum. Vefsíða dómstólsins er hér.

Appendix_3_Res1646(2009)-AP_e (pdf-skjal)

Appendix_4_Rules_of_procedure_PA_extract_pp_164-167_e (pdf-skjal)

Sjá vefsíðu dómstólsins hér.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum