Hoppa yfir valmynd
16. desember 2009 Dómsmálaráðuneytið

Ný málsmeðferð lögskilnaðarmála

Hjónum sem óska eftir lögskilnaði í kjölfar skilnaðar að borði og sæng gefst nú kostur á að sækja um slíkan skilnað skriflega til sýslumanns í stað þess að mæta á skrifstofu sýslumanns til viðtals. Þessi málsmeðferð, sem er að danskri fyrirmynd, felur í sér mikið hagræði, bæði fyrir sýslumann og málsaðila. Hún verður þó ekki viðhöfð í öllum lögskilnaðarmálum heldur aðeins þeim málum þegar hjón eru sammála um að leita lögskilnaðar í kjölfar skilnaðar að borði og sæng. Hjón geta þó ávallt óskað eftir viðtali við sýslumann vegna skilnaðar, eins og verið hefur.

Á vef sýslumanna, www.syslumenn.is, er að finna eyðublað með ítarlegum leiðbeiningum sem hjón sem óska lögskilnaðar geta fyllt út og sent sýslumanni. Ef öll skilyrði fyrir útgáfu leyfisbréfs til lögskilnaðar eru uppfyllt gefur sýslumaður leyfisbréfið út og sendir hjónunum í pósti.

Aðeins er hægt að sækja um lögskilnað skriflega þegar hjón eru sammála um að æskja lögskilnaðar með sömu skilmálum og ákveðnir voru við skilnað að borði og sæng. Samkvæmt beinum fyrirmælum hjúskaparlaga ber við skilnað að borði og sæng að ákveða hvernig skipa skuli málefnum barna vegna skilnaðarins sem og málum er lúta að framfærslu milli hjónanna og fjárskiptum þeirra. Þeir skilmálar sem hjón koma sér saman um við skilnað að borði og sæng eiga síðan almennt að gilda óbreyttir við lögskilnað. Sjaldnast taka hjón því nýjar ákvarðanir um þessi mál við lögskilnað þótt slíkt sé auðvitað ekki útilokað. Í þeim tilfellum geta hjón ekki óskað eftir lögskilnaði skriflega heldur verða þau að mæta til viðtals við sýslumann.

Við lögskilnað þurfa hjón að upplýsa hvort þau hafi haldið áfram að búa saman eftir útgáfu leyfis til skilnaðar að borði og sæng eða tekið upp sambúð aftur. Ef svo er getur það komið í veg fyrir útgáfu lögskilnaðarleyfis að sinni.

Eyrún Guðmundsdóttir, deildarstjóri hjá sýslumanninum í Reykjavík, hefur haft veg og vanda af gerð eyðublaðsins og leiðbeininganna ásamt Jónasi Guðmundssyni, sýslumanni í Bolungarvík sem sér um vef sýslumanna. Sjá nánari upplýsingar um hjónaskilnaði hér á vef sýslumanna.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum