Afhending trúnaðarbréfs á Írlandi
Benedikt Jónsson, sendiherra, afhenti frú Mary McAleese, forseta Írlands, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands á Írlandi, þriðjudaginn 15. desember 2009. Að lokinni afhendingu átti sendiherra fund með forsetanum og embættismönnum hans. Forsetinn fór afar hlýjum og vinsamlegum orðum um samskipti ríkjanna og taldi þau skipta enn meira máli nú en oftast áður þegar bæði ríkin ættu við svipaða erfiðleika að etja á efnahagssviðinu.
Þá átti sendiherra fundi með háttsettum embættismönnum í utanríkisráðuneyti Írlands þar sem helst var til umræðu aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu, staða efnahagsmála á Íslandi með hliðsjón af bankahruninu fyrir rúmu ári og framtíðarhorfur. Ennfremur fundaði sendiherra með Dick Roche, Evrópumálaráðherra Írlands, og Bernard Durkan, formanni Evrópumálanefndar írska þingsins (Dáil Éireann) um stöðu aðildarumsóknar Íslands að ESB og stöðu Íslands í Evrópusamstarfinu. Allir viðmælendur sendiherra staðfestu stuðning og vinsamlega afstöðu til aðildarumsóknarinnar auk skilnings á stöðu Íslands vegna fjármálahrunsins.